Flug­fé­lög á borð við Luft­hansa og Brussels Air­lines munu fljúga þúsundum „drauga­véla“, tómum eða hálf­tómum flug­vélum, á næstu mánuðum til að við­halda plássi sínu á flug­völlum í Evrópu.

Fram­kvæmda­stjórn Evrópu­sam­bandsins setur reglur um nýtingu á verð­mætum tíma plássum á flug­völlum í Evrópu. Flug­fé­lög þurfa venju­lega að nýta átta­tíu prósent af plássi sínu eða eiga á hættu að missa þau til sam­keppnis­aðila.

Vegna heims­far­aldursins var hlut­fallið lækkað niður í fimm­tíu prósent en bráð­smitandi Omíkron af­brigði kórónu­veirunnar hefur sett flug­ferðir í upp­nám.

Stefnt er að því að hækka hlutfallið aftur í 64 prósent í lok mars en í byrjun sumars hefur verið spáð mikilli aukningu á farþegum.

Þungt að missa pláss á flugvöllum


Brussels Air­lines hefur lýst því yfir að það muni að öllum líkindum þurfa að fljúga um þrjú þúsund tóm eða hálf­tóm flug á næstu þremur mánuðum til að upp­fylla skil­yrðin.

„Plássin eru nauð­syn­leg fyrir okkur til að komast lífs af,“ segir Maai­ke Andries, tals­maður Bruss­les Air­lines í sam­tali við belgíska frétta­miðilinn VRT. „Við vitum að flugin munu verða að­laðandi á ný. Við verðum að við­halda plássunum okkar!“

Luft­hansa, móður­fé­lag Brussels Air­lines, telur að það muni þurfa að fljúga á­tján þúsund ó­þarfar flug­ferðir vegna reglu­gerðarinnar.

„Óskiljan­legt og til­gangs­laust"


Að­gerða­sinnar í lofts­lags­málum hafa einnig lýst yfir á­hyggjum yfir stöðunni. Greta Thun­berg deildi meðal annars frétt um málið með kald­hæðnis­legum skila­boðum um að Evrópu­sam­bandið væri í neyðar­að­gerðum gegn lofts­lags­vánni.

Geor­ges Gilki­net sam­göngu­ráð­herra Belgíu hvetur Adina Valean sam­göngu­mála­stjóra ESB til að endur­hugsa reglu­gerðina í bréfi þar sem hann segir meðal annars: „Þessi mikla mengun sem flugin búa til ganga gjör­sam­lega gegn mark­miðum ESB í lofts­lags­málum.“

Í Twitter færslu skrifar Gilki­net að á­standið sé „ó­skiljan­legt og til­gangs­laust frá efna­hags­legu, vist­fræði­legu og fé­lags­legu sjónar­horni“ og biðlar til fram­kvæmda­ráðs ESB að breyta reglunum á meðan far­aldurinn stendur yfir.

Í Banda­ríkjunum hafa svipaðar reglu­gerðir verið felldar úr gildi á flestum flug­völlum fram að 26. mars vegna kórónu­veirufar­aldursins, sam­kvæmt frétt CBS News.