Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda í miðborg Amsterdam í dag, en um fimm þúsund manns höfðu boðað komu sína til að mótmæla of ströngum sóttvarnaraðgerðum.
COVID-19-faraldurinn hefur haft mikil áhrif á daglegt líf íbúa í Hollandi en faraldurinn hefur verið í vexti þar undanfarnar vikur. Skólar, kaffihús, veitingahús, söfn og kvikmyndahús eru meðal annars lokuð og þá eru allir sem geta hvattir til að sinna vinnu sinni heima. Yfirvöld í Hollandi hafa boðað að yfirstandandi aðgerðir standi til 9. febrúar næstkomandi hið minnsta.
Mótmælin í dag fóru fram skammt frá van Gogh-listasafninu og var lögregla búin undir það að hópur fólks myndi láta sjá sig. Aðstandendum mótmælanna var í síðustu viku synjað um leyfi til að halda þau en þrátt fyrir það boðuðu margir komu sína.
Óeirðarlögreglumenn komu á svæðið skömmu eftir að mótmælin hófust og var meðal annars notast við vatnsbyssur til að tvístra hópnum. „Farið heim og haldið eins og hálfs metra fjarlægð,“ sagði lögreglan í Amsterdam á Twitter-síðu sinni.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem ljósmyndarar EPA tóku í dag.




