„Nóvember markaði ákveðin tímamót í Ylju en þá var þúsundasta heimsóknin skráð í neyslurýmið,“ segir Marín Þórsdóttir, deildarstjóri verkefnisins hjá Rauða krossinum, en hann rekur rýmið.

Ylja er opin virka daga á milli klukkan 10 og 16 og eru 30 prósent gesta konur en 70 prósent karlar.

„Úrræði sem opin eru fyrir heimilislausa á daginn eru af skornum skammti. Kirkjan rekur Skjól fyrir konur og teljum við það vera helstu ástæðu þess að þær nýti sér Ylju síður en karlar,“ segir Marín.

Hins vegar séu engin úrræði fyrir karla sem opin eru á daginn.

„Neyðarskýlum borgarinnar er lokað klukkan tíu á morgnana og eru ekki opnuð aftur fyrir en fimm seinnipartinn,“ segir Marín en þau sem koma í Ylju fá einnig hlý föt yfir köldustu mánuði ársins.

„Vímuefnavandi er ekki eingöngu félagslegur vandi heldur er hann blanda af heilbrigðis- og félagslegum vanda,“ segir Marín. Þeir gestir sem sæki Ylju fái nær alltaf sálfélagslegan stuðning við komu sína í bílinn.

„Það er í 94 prósentum tilfella samkvæmt tölunum sem við tókum saman í lok september síðastliðnum,“ segir Marín.

Æ oftar þurfa einstaklingar frá að hverfa vegna mikillar eftirspurnar í bílnum.

Auk sálfélagslegs stuðnings er lágmarks heilbrigðisþjónusta vegna sára og sýkinga veitt í bílnum auk skaðaminnkandi ráðgjafar. Verkefnið er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Rauða krossins og er til eins árs. Marín segir þau hafa lært mikið á þessum reynslutíma.

„Bíllinn, sem er bráðabirgðaúrræði, dugar ekki til,“ segir Marín. Einungis tveir geti nýtt sér rýmið í einu.

„Æ oftar þurfa einstaklingar frá að hverfa vegna mikillar eftirspurnar í bílnum. Það reynist starfsfólki mínu afar þungbært því í þau skipti vita þau til þess að fólk er að nota í ótryggum aðstæðum, berskjölduð fyrir almenningi og hættan á of­skömmtun stóreykst,“ segir Marín.