Um þúsund íslensk börn glíma við skólaforðun og treysta sér ekki til að mæta í skólann. Unnsteinn Jóhannsson, verkefnastjóri hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL), segir að áætla megi að fjöldinn sé mun meiri. Kennsla og nám á tímum Covid-19 hafi boðið fram ýmsar lausnir sem gætu hentað þessum hópi.

Velferðarvaktin gerði í síðustu viku rannsókn um skólaforðun fyrir árið 2019 og kom þá í ljós að 2,2 prósent íslenskra barna þjást af skólaforðun og treysta sér ekki, af fjölbreyttum orsökum, til að mæta í skólann.

Guðrún Erla Hilmarsdóttir, verkefnastjóri hjá BUGL, bendir á að mögulegt geti verið að einstaklingar hafi einangrast enn frekar á tímum Covid „og dvelji því í sínum geðröskunum heima við,“ segir hún.

Kvíði og þunglyndi eru helstu áhættuþættir þegar kemur að skólaforðun, auk tilfinningavanda og hegðunarörðugleika.

„Skynáreiti er einnig erfitt fyrir einhverja,“ segir Unnsteinn. „Það eru börn sem eiga til dæmis erfitt með lykt, hávaða eða birtu og finna fyrir miklum óþægindum við það að mæta í skólann,“ bætir hann við.

Þau segja að mikilvægt sé að mennta- og heilbrigðiskerfi vinni saman, grípi inn í og finni lausnir. Skólinn Ásgarður er með alla sína kennslu á netinu og sinnir nemendum hvaðanæva af landinu. Hann er úrræði sem hefur reynst mörgum vel enda fer kennsla fram í gegnum netið og nemendur geta sinnt náminu heima.

Guðrún Erla og Unnsteinn segja að samræmd skráning þurfi að ná yfir landið allt svo hægt sé að grípa inn í, en borið hefur á að skólastjórnendur og kennarar vilji gjarnan ekki skrá fjarvistir því þeir halda að þeir séu að hjálpa einstaklingnum með því að draga ekki niður mætingareinkunn.

Á föstudag heldur BUGL ráðstefnu um skólaforðun þar sem rætt verður um ýmsar lausnir sem eru í boði og ungt fólk sem glímt hefur við skólaforðun mun deila reynslu sinni.

Nánar á Fréttavaktinni á Hringbraut klukkan 18.30 í kvöld.