Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra skoraði á talsmenn öryrkja í Facebook-færslu í gær að nefna það tímabil undanfarna áratugi þar sem kaupmáttur bóta hefði vaxið meira en síðastliðin 8 ár.

Hann lagði fram spurninguna í kjölfar þess að Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem bandalagið telur að hann hafi sett fram villandi tölur í minnisblaði sem hann lagði fram á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag. Hann sagði einnig að það væri fráleitt að sitja undir á­sökunum um að vilja láta halla á hlut ör­yrkja.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins tók áskorun ráðherra og svaraði honum.

„Stutta svarið við því er að fyrir einhleypan öryrkja sem varð öryrki 18 ára, jókst kaupmáttur hámarksgreiðslna hans meira en undanfarin átta ár, á hvaða átta ára tímabili sem er, frá október 1997 til október 2008. Fyrir þann sem er í sambúð eða giftur á þetta sama við á tímabilinu október 1997 til október 2011, eða alveg að því tímabili sem þú kýst að miða við. Þetta tekur til hæstu mögulegra greiðslna frá TR, þeirra sem fengu örorkumat 18-24 ára og eru einhleyp. Samkvæmt upplýsingum frá TR er hér um 9 einstaklinga að ræða árið 2019."

Kaupmáttur lágmarkslauna hækkað meira

Þuríður nefnir máli sínu til rökstuðnings skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskólans sem reiknar út kaupmátt óskerts lífeyris almannatrygginga, og ber saman við kaupmátt lágmarkslauna.

Hún segir jafnframt að Öryrkjabandalagið víki sér ekki undan þeirri staðreynd að kaupmáttur óskerts lífeyris hafi hækkað en bendir á að kaupmáttur lágmarkslauna hafi hækkað mun meira.

„Í samanburðinum er óskertur örorkulífeyrir og lægstu laun sett í 100 árið 2009. Árið 2018 er kaupmáttur óskerts örorkulífeyris komin í 118 fyrir skatta, en lægstu launa 161. Þarna munar 43 stigum, kaupmáttur örorkulífeyris er með öðrum orðum 73% af kaupmætti lægstu launa við lok tímabilsins."

Tekjur hækka um tæpar þrjú þúsund krónur

Þuríður segir þetta vera í takt við þá staðreynd að örorkulífeyrir verður ekki nema þrír fjórðu af lágmarkslaunum um næstu áramót. „Og það haggar ekki þeirri staðreynd að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar ná lítið til þeirra sem hafa tekjur undir 300 þúsund krónur á mánuði. Ráðstöfunartekjur öryrkja, sem um áramót fær 265 þúsund krónur rúmar fyrir skatt, aukast vegna skattalækkana um 2.900 krónur rúmar á mánuði."

Segir Bjarna fara með rangt mál

Bjarni segir í færslu sinni í gær að það sæti furðu ef ÖBÍ deili ekki áhyggjum af því að sífellt hærra hlutfall landsmanna þurfi örorkubætur og endurhæfingarlífeyri. „Sú þróun er algerlega ósjálfbær og ábyrgðarleysi að horfast ekki í augu við vandann."

Þuríður segir þessa fullyrðingu ráðherrans vera ranga og vitnar í skýrslu Kolbeins Stefánssonar félagsfræðings, sem hann vann fyrir ÖBÍ. Þar kemur fram að örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað umtalsvert frá aldamótum, nokkuð frá 2008 en lítið sem ekkert frá 2017 miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir í dag og að breytingin á milli 2008 og 2019 gefi ekki rétta mynd af stöðu mála í dag.

Vill að ráðherra ráði öryrkja í hlutastarf

Þuríður endar bréfið á því að furða sig á því að Bjarni, sem formaður Sjálfstæðisflokksins hafi í gegnum tíðina haft frelsi einstkalingsins til orða og athafna á sinni stefnuskrá, hafi ekki gefið öryrkjum t.d. tækifæri á að fá hlutastörf hjá hinu opinbera en engan slíkan er að finna í fjármálaráðuneytinu. „Vilji öryrkja til þátttöku á vinnumarkaði er til staða hjá langflestum. Sem sést best á því að þrátt fyrir þessar háu girðingar, þrátt fyrir þessar gríðarlegu skerðingar, eru samt um þriðjungur öryrkja á vinnumarkaði. Eða voru fyrir heimsfaraldur kórónuveiru."

„Það er ánægjulegt að fá loks að ræða þessi mál við þig, og við erum tilbúin til þess hvenær sem er, eins og ósvaraðir tölvupóstar síðustu þriggja ára í innhólfi tölvu þinnar bera vott um."

Ég fagna allri umræðu sem miðar að því að varpa ljósi á allt of rýrar greiðslur til öryrkja. Hér er svar mitt til...

Posted by Þuríður Harpa Sigurðardóttir on Thursday, 29 October 2020