„Ég held að þetta sé ekkert eins­dæmi, að fólk sé hálf land­laust þegar það kemur að heil­brigðis­kerfinu, því miður,“ segir Þuríður Harpa Sigurðar­dóttir, for­maður Ör­yrkja­banda­lags Ís­lands um það hvort finna megi dæmi í þjóð­fé­laginu sem eru sam­bæri­leg máli Sæ­vars Daníels Kolanda­velu.

Sæ­var er ör­yrki á fer­tugs­aldri sem farið hefur þrettán sinnum á bráða­mót­töku á einu ári til að leita lækninga við slæmum meiðslum sem hann hlaut á síðasta ári. Hann hefur sótt eftir dánar­að­stoð og er heimilis­laus.

Sævar Daníel Kolandavelu er öryrki sem vinahjón hafa skotið skjólshúsi yfir en átta ára dóttir þeirra gekk úr rúmi fyrir hann. Herbergið er fimm fermetrar. Hann segir heilbrigðiskerfið hafa gefist upp á sér.
Mynd/aðsend

Þuríður segist vissu­lega ekki hafa þekkingu á máli Daníels en telur að­gengi að heil­brigðis­kerfinu mjög tak­markað í dag.

„Bið­listar eru mjög langir, sama hvar þú grípur niður og mikil þörf er á breytingum svo fólk fái fljótari úr­lausn mála. Þetta er svona hvort sem það er um börn, ung­menni eða full­orðið fólk að ræða,“ segir Þuríður Harpa sem telur stöðuna orðna mjög al­var­lega.

„Ef þú biður um tíma hjá lækni þá getur það verið allt að tveggja mánaða bið. Þannig að þetta er orðin nokkuð al­var­leg staða myndi ég segja því þetta er okkar fyrsta snerting, að komast að á heilsu­gæslu,“ segir hún.

„Ég held engu að síður að fólk sem starfar innan heil­brigðis­kerfisins sé að reyna að gera sitt besta. En það er eitt­hvað sem þarf að breyta þarna, við erum orðin al­gjört bið­lista­land, alveg sama hvar við komum að innan kerfisins,“ segir Þuríður.

Rætt er ítarlega við Sævar Daníel Kolandelu á vef Fréttablaðsins og á Hringbraut.