Stutt er síðan Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjár­málum við Há­skóla Ís­lands, sagði sig frá úttekt Rík­is­end­ur­skoðunar á sölu á hlut rík­­isins í Íslands­banka, eftir að upp komst að hann hefði „lækað“ færslu á Facebook um útboðið. Eftir því sem samfélagsumræðan færist yfir á samfélagsmiðla eru fluttar fréttir af því hver „lækar“ hvað.

Konráð Jónsson, lögfræðingur en einnig „læk“-áhugamaður hefur flutt fyrirlestra í Háskóla Íslands um þetta takmarkaða tjáningarform. Konráð segir að það sé erfitt að svara því hvað eitt læk þýðir. „Það fer eftir samhenginu - það eru sumir sem læka bara rosalega mikið, aðrir sem læka minna. Svo er það þannig að eftir að aðrar tjáningar komu til sögunnar er staðan dálítið önnur. Það þarf að skoða hvað manneskjan er búin að læka í fortíðinni."

Konráð var í spjalli á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi og fór um víðan völl. „Ég á vin sem „lækar“ bara, hann hefur alltaf gert það. Og að honum ólöstuðum þá velti ég fyrir mér hvort þetta beri vott um tilfinningakulda karlmanna. Ég framkvæmdi smá tilraun þar sem ég birti mynd af börnunum mínum og ég taldi tilfinningarnar - „lækin“ og hjörtun, og horfði á þetta út frá kynjum.“ Konráð segist hafa séð marktækan mun á hver settu „læk,“ og hver settu hjörtu.

Konráð er einnig spurður um hversu langt gæti verið í að „lækið“ fari fyrir dóm eða verði notað í dómsmálum. „Fyrir átta-níu árum síðan „lækaði“ saksóknari færslu sem varðaði dómsmál og það var krafist frávísunar á því, en því var hafnað.“

Konráð segir að það vanti samfélagslegan sáttmála um að „lækið“ sé opið til túlkunar og að sá sem „lækar“ setur ekki endilega sömu merkingu á það og þeir sem fara yfir „lækin“ við umdeildar færslur.

Horfðu á viðtalið við Konráð hér fyrir neðan.