Dr. Helga Sif Friðjónsdóttir var nýlega ráðin til þess að annast heildarúttekt á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðast í.
„Það hefur lengi staðið til að rýna þjónustuferlið í heild sinni eins og kom fram í fréttinni um ráðninguna og greina hvar hnökrar eru á þjónustunni. Þannig er hægt að gera þetta heildstætt og byggir þá úttekt landlæknisembættisins sem gerð var í júlí í fyrra,“ segir Helga Sif og bætir við:
„Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni og ánægð að geta lagt mitt af mörkum. Þetta er mitt sérsvið.“
Úttekt landlæknis sem Helga Sif vísar til var biðlistaúttekt og er það að hennar sögn í raun aðeins byrjunin á greiningunni. Hún telur að nú þurfi að leggjast yfir þjónustuþörfina í heild sinni.
„Hvernig erum við að vinna þetta heildrænt saman. Þjónusta í þessum flokki sprettur upp víða, þá kannski sérstaklega sem ekki mætti flokka sem heilbrigðisþjónustu, eins og áfangaheimili og meðferðarstaðir og það þarf að byggja á bestu mögulegu samþættingu. Þetta eru eins og tveir heimar, það er annars vegar áfengis- og vímuefnavandi sem heilbrigðismál og svo áfengis- og vímuefnavandi sem afleiðing af félagslegum og þroskaþáttum,“ segir Helga Sif.
En við þurfum að þora að eiga opið og heiðarlegt samtal við mismunandi þjónustuveitendur um undirliggjandi hugmyndafræði, hvernig eigi að tryggja öryggi allra og hvað eigi að vera innifalið í þjónustunni
Ekki annað hvort félags- eða heilbrigðisvandi
Hún segir að það sem henni þyki mest spennandi sé að skoða þetta heildrænt úr frá lífsálfélagslegu módeli
„Af því að við vitum núna að þetta er ekki annað hvort félags- eða heilbrigðisvandi. Þetta er svo gríðarlega samþættur vandi og við getum svo auðveldlega samþætt þessa þjónustu í svona litlu samfélagi,“ segir Helga Sif.
Hún segir að hennar draumur sé að geta sinnt fólki hvar sem það er statt í sínu þróunarferli í vímuefnavanda og að það séu settar saman gagnreyndar forvarnir, gagnreynt meðferðarform og að það sé tekið tillit til þjónustuþarfa mismunandi hópa.
„Þróun innihalds í þjónustu er einsleitt hjá okkur,“ segir Helga Sif og segir að, sem dæmi, hafi Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa, verið ötul við að benda á að þarfir kvenna og karla séu ólíkar.
„En svo eru börn og fullorðin með ólíkar þarfir og eldri og yngri og svo er ólíkar þarfir hjá sem aðeins misnota áfengi og þeim sem eru háðir ópíötum. Við þurfum að skoða mismunandi undirhópa og hvaða þarfir þau hafa út frá þessi heildstæða fyrirbæri,“ segir Helga Sif.
Ekki annað hvort að nota eða á leið í meðferð
Hún segir að hún sé glöð að yfir því að henni hafi verið treyst fyrir þessu verkefni því það sýni að það sé líka vilji fyrir því að pæla í því hvernig eigi að samþætta meðferð og skaðaminnkun fyrir þá sem að eru staddir þar að geta ekki nýtt sér meðferðarhlutann.
„Við förum úr þessari tvíhyggju að annað hvort ertu að nota vímuefni, og þá ertu upp á náð og miskunn félagslega kerfisins kominn, eða þú ert í meðferðarkerfinu. Það er það sem ég hef mestar væntingar til, að við náum að samþætta þetta það vel að og byggja á því sem að löndin í kringum okkur eru að gera,“ segir Helga Sif.
Hún segir að hér þurfi alls ekki að finna upp hjólið. Það sé búið að rannsaka vel annars staðar hvað virkar vel fyrir ólíka hópa og telur að það sé ekki flókið að samþætta þetta.
„En við þurfum að þora að eiga opið og heiðarlegt samtal við mismunandi þjónustuveitendur um undirliggjandi hugmyndafræði, hvernig eigi að tryggja öryggi allra og hvað eigi að vera innifalið í þjónustunni, hvernig eigi að sinna eftirfylgd og svo framvegis,“ segir Helga Sif.
Hún segir að það sé góðar fyrirmyndir að finna víða og nefnir sem dæmi Svíþjóð, San Francisco og Ítalíu og það þurfi að skoða hvað sé að virka hjá þeim og hvernig það sé hægt að aðlaga það að Íslandi.
„Við erum í eðli okkar ekkert það ólík þegar kemur að vímuefnanotkun,“ segir Helga Sif.
Við förum úr þessari tvíhyggju að annað hvort ertu að nota vímuefni, og þá ertu upp á náð og miskunn félagslega kerfisins kominn, eða þú ert í meðferðarkerfinu.
Gott að ýta á pásu og skoða hvað virkar
Hún segist mjög ánægð að heilbrigðisráðherra hafi tekið ígrundaða ákvörðun um að skoða þetta með þessum hætti. Það sé ýtt á pásu, skoðað hvað er í boði og svo ákveðið hvað er að virka og hvað ekki.
„Þá vitum við hvað við viljum gera og hvernig og kannski skapar það tækifæri, eða „forum“ fyrir þjónustuveitendur, fólkið sem er að vinna á gólfinu, til að stoppa og skoða og þegar úttektin er tilbúin þá getum við búið til samráðsvettvang og ákveðið saman hvernig við ætlum að vinna þetta,“ segir Helga Sif.
Finnst þér þetta tala við umræðu og ákall sem hefur sprottið upp í tengslum við frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta um að það þurfi að auka meðferðarúrræði og aðra þjónustu?
„Það eru margir búnir að benda á að það þurfi heildstæða stefnu í meðferðarmálum og það þurfi að bæta í þar og þetta er algerlega fyrsta skrefið í að skoða hvað við erum með og hvað vantar okkur til viðbótar. Hvað eru aðrar þjóðir að gera og hver er árangurinn af því og hvað ætlum við að taka af því og samþætta í okkar þjónustu,“ segir Helga Sif.
Hún segir að í nýrri þingsályktun lýðheilsustefnu sé einnig talað inn á þetta. Þar sé talað um forvarnir og í þessu sé einblínt á meðferðarhlutann.
„Það liggur í hlutanna eðli að það sem ég er að gera mun fjalla um bæði meðferð og skaðaminnkun. Af því að ákveðinn hluti hópsins mun ekki vilja nýta sér meðferð, en hann fyrirgerir samt ekki rétti sínum á þjónustu,“ segir Helga og telur að þannig muni lýðheilsustefnan og úttektin hennar tala saman til að svara ákalli um að heildstæð stefna sé í málaflokknum.
Helga Sif starfar hjá heilbrigðisráðuneytinu sem sérfræðingur og sérfræðingur í geðhjúkrun í geðþjónustu Landspítalans. Helga Sif var um áramótin sæmd fálkaorðunni fyrir brautryðjendastörf á vettvangi skaðaminnkunar fyrir fíkniefnaneytendur og aðra jaðarsetta hópa. Hún situr í stjórn Rauða kross Íslands og hóf störf sín í Konukoti og var áður í forsvari fyrir Frú Ragnheiði.