„Það er stór hluti nemenda sem líður bara mjög illa,“ segir Sara Dís Rúnarsdóttir, hagsmunafulltrúi hjá Samtökum íslenskra framhaldsskólanema (SÍF).

Nemendur í framhaldsskólum hafa síðastliðið ár að miklu leyti verið í fjarnámi vegna samkomutakmarkana. Frá því 1. janúar á þessu ári hefur kennsla þó að mestu farið fram í staðnámi að nýju og segir Sara það hafa verið vilja meirihluta nemenda. Mikið álag fylgi þó þeim breytingum að fara úr fjarnámi yfir í staðnám.

„Fjarnámið var fínt fyrst og þeim nemendum sem voru sterkir námslega og skipulagðir fannst þægilegt að geta stjórnað sínu námi sjálfir en það kom fljótt þreyta í nemendur,“ segir Sara.

„Flakkið á milli fjarnáms og staðnáms er eitthvað sem við höfum ekki skoðað í þaula en við skynjuðum mikinn kvíða og stress meðal nemenda, sérstaklega varðandi óvissuna um það hvað myndi gerast næst,“ segir Sara og bætir við að samkvæmt niðurstöðum ráðgjafarhóps á vegum SÍF hafi 40 prósentum framhaldsskólanema liðið illa í fjarnámi. Þá sögðu einungis 22 prósent að sér hefði liði vel þann tíma sem fjarnámið stóð yfir.

Í ljósi þessara niðurstaðna segir Sara afar mikilvægt að huga að andlegri heilsu nemenda, til dæmis með aukinni sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Bóas Valdórsson, sálfræðingur í Menntaskólanum við Hamrahlíð, segir álag hafa verið mikið á nemendum í faraldrinum og að greinilegt sé að fjarnám fari misvel í þá.

SAXoPicture-0B2FEA00-146168477.jpg

Sara Dís Rúnarsdóttir, hagsmunafulltrúi hjá Samtökum íslenskra framhaldsskólanema. Fréttablaðið/Anton Brink

„Það var mjög greinilegt að nemendur upplifðu álag í þessum aðstæðum. Bæði það að flakka á milli staðnáms og fjarnáms en svo felst líka mikið álag í því að bera ábyrgð á námi sínu sjálfur eins og gerist í fjarnámi,“ segir Bóas.

Hann segir nemendur í MH nýta sér þjónustu hans í miklum mæli og að hann hafi heyrt sömu sögu frá kollegum í öðrum skólum. „Faraldurinn hefur verið þvílíkur rússíbani fyrir framhaldskólanemendur en það er ánægjulegt hvað þau eru dugleg að nota þjónustuna.“

Einungis eru starfandi sálfræðingar í um helmingi framhaldsskóla og segir Sara að SÍF hafi löngum barist fyrir því að sálfræðingur sé starfandi í þeim öllum. „Það er bara nauðsynlegt og sérstaklega núna. Við þurfum að takast á við líðan nemenda strax svo við sitjum ekki uppi með eftirköst faraldursins.“

Hildur Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri SÍF, tekur undir orð Söru og segir biðlista eftir almennum sálfræðingum allt of langa. Þá sé þjónusta þeirra mjög kostnaðarsöm. „Við lítum einnig á það sem kost að sálfræðingar séu sýnilegir í skólum,“ segir Hildur. „Núna stendur valið á milli þess að fara á langan biðlista hjá heilsugæslunni eða að borga hátt verð á almennum stofum.“