„Rauði þráðurinn er sá að við þurfum að hafa skoðanir á því hvernig samfélag við byggjum upp eftir kreppuna. Bráðaaðgerðirnar lúta að því að tryggja afkomu fólks og húsnæðisöryggi og setja skilyrði sem fyrirtæki sem fá ríkisstuðning þurfa að uppfylla,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.

ASÍ kynnti í gær framtíðarsýn um uppbyggingu Íslands undir yfirskriftinni „Rétta leiðin – frá kreppu til lífsgæða og öryggis fyrir okkur öll“. Þar eru lagðar fram ýmsar tillögur að bráðaaðgerðum, uppbyggingu til framtíðar og um eftirfylgni.

Drífa segir að það liggi fyrir að meira þurfi að gera fyrir heimili og einstaklinga.

„Það þarf að taka örugg skref til að tryggja afkomu fólks. Þar er kannski brýnast núna að hækka atvinnuleysisbætur og lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Ef við missum fólk í fátækt út af þessu þá er kreppan mun alvarlegri, langvinnari og erfiðari en hún þarf að vera.“

Horfa þurfi til framtíðar um nýsköpun og atvinnuuppbyggingu sem þurfi að vera mjög fjölbreytt.

„Við viljum hafa græn störf og sjálfbær störf. Við viljum að þemað í atvinnuuppbyggingunni verði að búa til störf. Þar erum við með tillögu um að nýsköpun sé svæðisbundin til að hún fari um allt land og verði í nærumhverfinu.“

Þrátt fyrir að ástandið sé nú erfitt segir Drífa að tækifærin séu sannarlega mörg. „Við vitum það að heimurinn, efnahagurinn og atvinnulífið verða ekki þau sömu eftir COVID og fyrir COVID. Tækifærin felast í því að hraða þeirri óumflýjanlegu þróun sem hefði orðið í nýjum tækifærum, fjölbreyttara atvinnulífi, sjálfbærara og grænna atvinnulífi.“

Verkalýðshreyfingin hefur kvartað undan samráðsleysi stjórnvalda vegna þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til vegna COVID-19 faraldursins. Drífa segir að það séu gríðarleg verðmæti í því fólgin að þátttaka í stéttarfélögum sé meiri á Íslandi en í nánast öllum öðrum löndum.

„Stjórnvöld hafa þarna einstakt tækifæri til að vera í samráði við kjörna fulltrúa vinnandi fólks. Það er auðvitað líka okkar að tryggja að það sé hlustað á það samráð. Við þurfum stöðugt að vera banka á dyrnar.“

Þetta tengist líka hugmyndafræðinni um réttlát umskipti sem alþjóða verkalýðshreyfingin og ýmsar alþjóðastofnanir hafi verið að tileinka sér. „Þær breytingar sem verða óhjákvæmilega á vinnumarkaði verði í samráði við fulltrúa vinnandi fólks til að tryggja að það leiði til góðra, öruggra og vel borgaðra starfa.“