Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, segir reynsluna sýna að mikil þörf sé á Kvennaathvarfi, fyrir konur með fjölþættan vanda og virkan vímuefnavanda, hér á landi. Konur sem glími við vímuefnavanda og/eða geðrænan vanda og hafi orðið fyrir ofbeldi þurfi að geta leitað í athvarf þar sem þær fái öryggi og viðeigandi stuðning.

„Skortur á kvennaathvarfi fyrir þennan hóp kvenna gerir það meðal annars að verkum að þær eiga erfiðara með að ná að nýta og halda sjálfstæðri búsetu, þar sem algengt er að konur með fjölþættan vanda verði ítrekað fyrir ofbeldi í nánum samböndum,“ segir Hrafnhildur.

Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar,

Úrræðið reynst vel í Danmörku

Í apríl í fyrra veitti félagsmálaráðuneytið Reykjavíkurborg 40 milljóna króna styrk til þjónustu við heimilislausa einstaklinga með fjölþættan vanda. Málaflokkurinn var skoðaður af velferðarsviði borgarinnar þar sem meðal annars kom í ljós að konum, sem leituðu í neyðarskýli eða vettvangsþjónustu borgarinnar vegna aukins ofbeldis í þeirra garð, hafði fjölgað mikið.

Eygló Margrét Stefánsdóttir kynjafræðingur starfar í kvenna­athvarfi í Óðinsvéum í Danmörku, sem sérstaklega er ætlað konum með tvíþættar greiningar, það eru í mörgum tilfellum konur sem eru með virkan vímuefnavanda og/eða þungar geðraskanir. Konurnar geta því ekki verið í hefðbundnum kvennaathvörfum þar sem eru börn. Hún segir úrræðið hafa reynst vel.

Eygló Margrét Stefánsdóttir, kynjafræðingur.
Mynd/Aðsend

Gefur konunum trú

„Margar af þeim heimilislausu konum sem koma til okkar búa við daglegt ofbeldi og óöryggi og hafa gert í mörg ár. Það hafa ekki verið mörg úrræði fyrir þennan hóp og erum við eitt af fyrstu kvennaathvörfunum sem bjóðum þessar konur velkomnar,“ segir Eygló.

Kvennaathvarfið er opið allan sólarhringinn og þar er pláss fyrir tuttugu konur sem orðið hafa fyrir ofbeldi. Þær búa í athvarfinu allt frá örfáum vikum upp í tvö ár og þar er leyfilegt að neyta neysluskammta vímuefna. „,Við erum að sjálfsögðu með reglur og ramma í kringum það,“ segir Eygló og bætir við að ekki allar konurnar neyti vímuefna.

Eygló segir úrræði líkt því og hún starfi í vel geta nýst hér á landi. „Við þurfum að opna úrræði sem veitir þessum hópi kvenna möguleika á að komast úr ofbeldisaðstæðum og gefur þeim trú á að þær eigi betra skilið,“ segir hún.

Þori ekki að leita sér hjálpar

„Það myndi gagnast þeim konum sem verða fyrir ofbeldi, bæði í nánum samböndum og þeim sem geta ekki komið í hefðbundin kvennaathvörf,“ segir Eygló og bætir við að margar konur sem verði fyrir ofbeldi þori ekki að leita sér hjálpar þegar þær verði fyrir ofbeldinu.

„Því oft fylgir lífi í vímuefnaneyslu eða lífi með geðröskunum alls kyns skömm, fordómar annars fólks og samfélagsins og gífurlegar sjálfsásakanir,“ segir hún.

„Sumar af þeim sem koma til okkar fara aftur á götuna eftir að hafa fengið öryggið hjá okkur um stund en sumum tekst að finna íbúð og tekst jafnvel að búa þar um hríð,“ segir Eygló. „Stundum gera þessar pásur sem þær fá hjá okkur það að verkum að þær fá meiri trú á sjálfar sig, þær vita að það er fólk sem vill þeim vel og er til staðar.“