„Ég held að það sé mjög mikilvægt að staldra við og hugsa aðferðafræðina alveg upp á nýtt varðandi virkjanamál í framtíðinni.“ Þetta sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi.

„Við verðum að reyna að einfalda þetta, ekki vera með svona mikið undir í hvert skipti. Reyna að vanda betur vinnuna og setja meiri vinnu í það að rannsaka og undirbúa þannig að við getum fengið forsendur til að taka þessar stóru og miklu ákvarðanir um frekari virkjanir á Íslandi,“ segir hann.

Hörður segir að til lengri tíma þurfum við að gera okkur grein fyrir því hvað mikið við þurfum til orkuskiptanna, en að við þurfum þá orku ekki strax. Orkuskiptin muni taka lengri tíma og það þurfi mikil tækniþróun að eiga sér stað. Orkuskiptin gerist í kringum 2035 og 2040 eða á því tímabili, en þær virkjanir sem ætlunin sé að nota þá verði að fara að skoða núna því það taki um 20 ár að undirbúa virkjun, segir forstjóri Landsvirkjunar.