Í síðustu viku var samþykkt að forsætisráðherra og ráðuneyti hennar myndu taka að sér að gera skýrslu um kostnað samfélagsins vegna fátæktar. Halldóra Mogensen þingkona Pírata lagði beiðnina fram og segir í grein í Fréttablaðinu í dag að það sé hennar ósk að beiðnin verði vonandi til þess að það verði hætt að tala um aukið fjármagn til velferðarmála sem útgjöld.
„Að uppræta fátækt er fjárfesting í fólki og samfélaginu sem skilar sér margfalt til baka,“ segir Halldóra í grein sinni.
Þar fer hún yfir það hvaða áhrif fátækt hefur á fólk, bæði líkamlega og andlega og hvernig það getur grafið undan heilsu þeirra.
„Fátækt getur einnig haft langvarandi áhrif á börn, því þroski fyrstu áranna leggur grunninn að heilsu þeirra til framtíðar. Þess vegna er mikilvægt að tryggja börnum bestu mögulegu byrjunina í lífinu,“ segir Halldór í grein sinni og bendir á að það sé vitað að þúsundir barna búi við fátækt á Íslandi en áætlað er að tólf prósent þeirra eigi í hættu á að búa við fátækt.
Að uppræta fátækt er fjárfesting í fólki og samfélaginu sem skilar sér margfalt til baka
„Stærsta orsök fátæktar er að fólk á ekki nægilega mikla peninga. Besta leiðin til að leysa þetta vandamál er einfaldlega að tryggja að fátækt fólk eigi meiri peninga. Þetta vitum við. En samt finna stjórnvöld endalausar réttlætingar fyrir því að viðhalda fátækt fólks. Algengasta réttlætingin er að það sé svo dýrt að afnema skerðingar, hækka bætur og tryggja að fólk eigi í sig og á – en það sem fylgir sjaldnast umræðunni er kostnaðurinn sem fylgir því að gera það ekki. Það er nefnilega afar kostnaðarsamt fyrir samfélagið að leyfa fátækt að viðgangast,“ segir Halldóra og að það sé nauðsynlegt að tryggja efnahagslegt öryggi fólks með auknum beinum framlögum og með því að draga úr skerðingum og skilyrðum í bótakerfinu.
„Svo þurfum við að hætta að tala um bætur. Þetta er arður, sjálfsagður hluti okkar í sameiginlegri velmegun samfélagsins,“ segir Halldóra.
Kostnaður greindur
Í greinargerð Halldóru með skýrslubeiðninni kom fram að til þess að við getum náð markmiðum okkar hvað varðar fátækt verði að liggja fyrir betri upplýsingar um ástandið og aðgerðir stjórnvalda.
„Með skýrslubeiðni þessari er forsætisráðherra falið að rannsaka þann kostnað sem fellur til vegna fátæktar, m.a. kostnaðar sem fellur á heilbrigðisþjónustuna, félagslega þjónustu ríkis og sveitarfélaga, lögreglu, dóms-, fangelsis- og menntakerfið. Í skýrslunni verði fjallað um þá áætluðu fjárhæð sem fátækt kostar, bæði hvað varðar opinbera aðila á borð við ríki og sveitarfélög en einnig almennan samfélagslegan kostnað sem fellur ekki með beinum hætti á ríkið heldur á einstaklinga, heimili og fyrirtæki,“ segir enn frekar.