Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er ekki með tillögur á teikniborðinu fyrir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um hertar aðgerðir en segir að í ljósi smita á landamærum gæti staðan breyst á skömmum tíma.

„Þá gæti sú staða komið upp fljótlega ef ástandið fer versnandi,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Sautján manns greindust með COVID-19 síðastliðinn sólarhring, af þeim voru 10 innanlands og sjö á landamærum. Nær þrjár vikur er liðnar frá því að ríkisstjórn aflétti öllum innanlands takmörkunum vegna COVID-19 hér á landi.

Fjöldi smita hafa borist til landsins frá landamærum síðustu daga, einkum með bólusettum en einnig óbólusettum komufarþegum. Smit virðast einkum dreifast hér innanlands frá einstaklingum sem eru með tengslanet hér á landi og á skemmtanalífinu.

Flest smit á landamærum undanfarið eru vegna Delta afbrigðis og Gamma-afbrigðis sem má rekja til Brasilíu. Segist Þórólfur hafa fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur af þeirri þróun.

Nú þurfa ferðamenn einungis að sýna bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu. Þórólfur vill finna leiðir til að sporna við dreifingu COVID-19 um samfélagið án hertra aðgerða og leggur til að krefja alla sem hingað koma um neikvætt PCR vottorð. Höfum við ekki bolmagn til að taka sýni frá öllum sem hingað koma.

„Fjöldi ferðamanna er alltof mikill,“ sagði Þórólfur.

„Þannig met ég stöðu okkar í heimsfaraldrinum áfram góða en viðsjárverða. Það er rétt að minna á það að baráttunni við COVID-19 er hvergi nærri lokið og meðan faraldurinn er enn í mikilli útbreiðslu í heiminum þá þurfum við að gæta okkar vel og jafnvel þótt við séum vel bólusett.“