Þó að 76% lands­manna séu nú full­bólu­settir gegn CO­VID-19 þurfum við að gera enn betur til að fyrir­byggja hraðari út­breiðslu og mikil veikindi. Þetta kemur fram í til­kynningu frá heil­brigðis­ráðu­neytinu um stöðu mála hér á landi.

Bent er á að smitum af völdum Co­vid-19 hafi fjölgað nokkuð undan­farið og þróun í ýmsum ríkjum Evrópu, þar sem fjölgun smita er enn hraðari og sjúkra­hús­inn­lögnum fjölgar ört, kalli á stöðu­mat hér.

Heil­brigðis­ráðu­neytið í­trekar mikil­vægi þess að þeir sem ekki hafa farið í bólu­setningu geri það, bæði til að verja sam­fé­lagið gegn út­breiddu smiti en einnig til að tak­marka á­hrifin á heil­brigðis­kerfið. Þá er fólk hvatt til að þiggja örvunar­bólu­setningu sam­kvæmt ráð­leggingum sótt­varna­læknis.

Ekkert smit hjá bólusettum börnum

Nú hafa um 76% lands­manna verið full­bólu­settir gegn veirunni, en 89% ef að­eins eru taldir 12 ára og eldri. Bólu­setningar­hlut­fallið er um 99% hjá þeim sem eru 70 ára og eldri en nokkru lægra hjá þeim sem yngri eru. Um 64% barna, í aldurs­hópnum 12-15 ára, hafa nú fengið bólu­setningu en bólu­setningar barna í þessum aldurs­hópi hófust í ágúst síðast­liðnum.

Bent er á það í til­kynningunni að hingað til hafi ekkert smit greinst hjá bólu­settum börnum í þessum aldurs­hópi.

„Sú var einnig raunin í rann­sókn sem gerð var á notkun bólu­efnis Pfizer sem var undan­fari markaðs­leyfis fyrir notkun þess hjá þessum aldurs­hópi þar sem vörnin reyndist 100%,“ segir í til­kynningu ráðu­neytisins. Þá kemur fram að fljót­lega verði unnt að bjóða börnum á aldrinum 6-11 ára bólu­setningu með bólu­efni Pfizer. Rann­sóknum á notkun bólu­efnisins fyrir þennan aldurs­hóp er lokið og er reiknað með að leyfi fyrir notkun lyfsins handa börnum á þessum aldri verði veitt fyrir ára­mót.

Mæla með örvunarbólusetningu

Þá er mælt með örvunar­bólu­setningu fyrir alla 60 ára og eldri, heil­brigðis­starfs­fólk, íbúa á hjúkrunar­heimilum og til­tekna við­kvæma hópa. Vísað er í rann­sókn sem gerð var í Ísrael og birt í The New Eng­land Journal of Medicine sem sýnir um­tals­verðan árangur af örvunar­bólu­setningu ein­stak­linga 60 ára og eldri sem voru full­bólu­settir með tveimur skömmtum af bólu­efni Pfizer og fengu örvunar­skammt þegar að minnsta kosti 5 mánuðir voru liðnir frá seinni sprautunni.

„Að liðnum 12 dögum frá örvunar­bólu­setningu voru líkur á smiti rúm­lega 11 sinnum minni en hjá sam­bæri­legum hópi sem ekki hafði fengið örvunar­skammt og líkur á því að þeir veiktust al­var­lega af Co­vid-19 voru nærri 20 sinnum minni.“

Heilsu­gæslan annast örvunar­bólu­setningar og munu allir sem eru 60 ára og eldri fá boð um slíkt, að því er segir í til­kynningunni. Nú þegar hafa um 59% heil­brigðis­starfs­fólks fengið örvunar­skammt, um 68% íbúa á hjúkrunar­heimilum og um 57% annarra sem eru 60 ára og eldri. Miðað er við að þeir sem eru 70 ára og eldri fái örvunar­skammt ef þrír mánuðir eru liðnir frá því að við­komandi var full­bólu­settur en fólk á aldrinum 60 til 70 ára að sex mánuðum liðnum.