Ljóst er að súrálið sem notað var í ker í framleiðslu álversins Rio Tinto í Straumsvík varð þess valdandi að ljósbogi myndaðist inni í einu kerinu og var í kjölfarið ákveðið að slá út skála 3 eins og hann leggur sig. Meira en þriðjungur framleiðslu álversins liggur nú niðri.

„Ljósboginn myndaðist inni í kerinu og þá er búnaður sem rýfur straum strax á sekúndubroti. Þetta gerist inni í kerinu en ekki frá keri og í eitthvað annað. Kerið er lokað,“ segir Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi. Enginn starfsmaður var nálægt þegar ljósboginn myndaðist.

Vöntun á súráli

Súrálið sem var í notkun reyndist of fíngert fyrir kerin í Straumsvík en álverið hafi ekki getað keypt súrál af sínum aðalbirgja vegna vöntunar.

„Það er búið að vera ástand á alheimsmörkuðum sem hefur leitt til þess að það er erfitt að fá súrál í heiminum,“ segir Rannveig. Því hafi þau keypt súrál sem þau þekktu ekki frá nýjum birgjum.

„Maður reynir að fá súrál frá sem fæstum. Við þekkjum ekki það marga súrálsframleiðendur.“

Betra súrál komið til landsins

Flutningaskip með fullfermi af súráli lagðist að bryggju í gær og unnið er að því að koma því í álverið.

„Það sem við erum að fá núna er frá Brasilíu. Þetta ástand er að batna á mörkuðunum og við erum búin að staðfesta súrálskaup út árið.“

„Við erum að vinna að því að koma kerskálum 1 og 2 í stand,“ segir Rannveig. Minni straumur er á skála 1 og 2 svo Rannveig telur ekki líkur á að sömu aðstæður geti skapast þar og í skála 3. Álið er nú harðnað í þeim 160 kerjum sem eru í skála 3 en hann er með meiri afkastagetu en hinir tveir skálarnir. Einnig eru

„Álið er kólnað í kerjunum en kerin voru stöðvuð með stýrðum hætti með það fyrir augum að sem best gangi að endurræsa þau. Ekki líkt og þegar rafmagn fer af eða eitthvað slíkt,“ segir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto.

Ekki ljóst hve langan tíma tekur að gangsetja

Rannveig segir ekki til um hve mikið fjárhagslegt tjón hlýst af stöðvun skálans en ljóst er að það er talsvert mikið. Nú er unnið að gangsetningu aftur og þarf aukinn mannafla fyrirtæksins til að yfirfara og gangsetja kerin. Einu sinni áður þurti að slökkva á kerskála 3, vegna bilunar árið 2006 og tók þá 10 vikur að koma starfsemi skálans aftur í gang. Rannveig segist ekki vita hve langan tíma gangsetningin taki núna.

„Við þurfum fyrst að ná tökum á skála eitt og tvo og við þurfum að sjá að þetta súrál sem er að koma gangi vel á okkar ker.“

Segir Rannveig gott samstarf við móðurfyrirtækið Rio Tinto sem hún segir hafa sent sérfræðing í gangsetningu og rekstri kerjanna til landsins til þess að vera innan handar. Er hann þegar kominn til landsins og er von á öðrum á morgun.

„Það þarf að skoða hvert og eitt ker en þau eru mjög misjöfn, sum eru í góðu standi og önnur voru orðin veik,“ segir Rannveig.