Viðbragðsaðilar þurftu að taka erfiða ákvörðun daginn sem ferðamaður fór út í sjóinn: að aðhafast ekki vegna þeirrar hættu sem björgunaraðilum var búin við Reynisfjöru.

Lögreglan á Suðurlandi segir að aðstæður í Reynisfjöru, þar sem kínversk kona á tvítugsaldri lést eftir að hafa lent í briminu, hafi verið einhverjar þær erfiðustu sem hjálparaðilar hafi séð.

Konan lést eftir að hún barst út á haf á fjórða tímanum þann 10. nóvember síðastliðinn. Eftir nokkra leit fannst konan og var hífð upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar og flutt á heilsugæslu í Vík þar sem hún var úrskurðuð látin. 

„Þarna þurfti að taka ákvörðun um að aðhafast ekki [...] að öðru leiti en því að fylgjast með manneskjunni þar sem hún sást fyrst um sinn frá landinu á floti í sjónum.“

Lögreglan segir málið hafa reynt á alla.

Lögreglan segir að mikið brim hafi verið á þessum tíma við ströndina og of hættulegt að sjósetja báta til björgunar. Viðbragðsaðilar hafi þurft að taka mjög erfiða ákvörðun: að aðhafast ekki.

„Þarna þurfti að taka ákvörðun um að aðhafast ekki, vegna þeirrar hættu sem björgunaraðilum var búin, með þeim björgum sem tiltækar voru að öðru leiti en því að fylgjast með manneskjunni þar sem hún sást fyrst um sinn frá landinu á floti í sjónum,“ segir í verkefnalýsingu lögreglunnar.

„Engum dylst að slíkt reynir á alla sem að málinu komu.“

Kínverskur ferðamaður lést þegar hann lenti í brimi í Reynisfjöru þann 10. nóvember og barst út á haf þar sem hann fannst síðan.
Fréttablaðið/Jóhann K Jóhannsson

Landeigendur og Landsbjörg ræða öryggisúrbætur

Jónas Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, sagði í samtali við mbl.is að hluti landeigenda á svæðinu hafi staðið í vegi úrbóta í öryggisátt á ströndinni.

Íris Guðnadóttir, einn landeigenda að Reynisfjöru á Suðurlandi, þvertók fyrir þetta í færslu á Facebook-síðu sinni og sagðist sár yfir ásökunum Jónasar.

„Það erum við sem þurfum að horfa upp á þetta. Mamma mín stóð uppi á brekkunni í gær og horfði á stelpuna berast út og drukkna. Árið 2016 var það mamma mín sem hlúði að ekkjunni og færði hana í þurr föt. Árið 2007 var það nítján ára bróðir minn sem fór út á slöngubát til að sækja líkið af konunni sem drukknaði þá. Það að saka okkur landeigendur um að standa á móti öryggisúrbótum finnst mér grafalvarlegt. Þetta er blaut tuska, virkilega blaut tuska.“