Nóg var um að vera hjá slökkvi­liðinu á höfuð­borgar­svæðinu í nótt en dælu­bílar slökkvi­liðsins voru kallaðir út átta sinnum. Í þremur til­vikum var boðið aftur­kallað en í hinum til­fellunum gekk allt nokkuð vel.

Að því er kemur fram í færslu slökkvi­liðsins á Face­book var eitt út­kallið við Laugar­veg í nótt þar sem vanda­mál kom upp vegna ó­lög­lega lagðra bíla í mið­borginni. „Þrengingar í mið­bæ Reykja­víkur eru okkur stundum svo­lítið erfiðar, stærri bílar sömu göturnar.“

„Við lentum í því í nótt að rekast utan í bíll á leið í út­kall og svo þurfti á­höfn dælu­bíls að stoppa og færa bif­reið með hand­afli til að komast leiðar sinnar,“ segir í færslunni og er þar fólk hvatt til að leggja vel og lög­lega.

Þá sinnti slökkvi­liðið ýmsum öðrum verk­efnum í gær og í nótt, þar af 123 sjúkra­flutningum þar sem 40 voru for­gangs­flutningar. Þá voru sex CO­VID-19 flutningar síðast­liðinn sólar­hring.

Góðan daginn. Slökkviliðið fékk útkall við Laugarveg í nótt. sem reyndist vera minniháttar og enginn hætta sem var...

Posted by Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. on Föstudagur, 12. mars 2021