Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu sinnti ýmsum verk­efnum í gær­kvöldi og í nótt en að minnsta kosti eitt verk­efni tengdist því beint að páskadagur fór fram í gær.

Þar voru við­bragðs­aðilar kallaðir út til að reykræsta íbúð í Grafar­vogi en að sögn lög­reglu hafði páska­lambið verið full lengi í ofninum.

Líkamsárás og brot á nálgunarbanni

Önnur verk­efni lög­reglu voru heldur al­var­legri en til að mynda var maður hand­tekinn í Hafnar­firði fyrir að ráðast á leigubílsstjóra. Maðurinn var í mjög annar­legu á­standi en hann var í kjöl­farið vistaður í fanga­geymslu þar sem hann bíður skýrslu­töku.

Þá var einn einnig hand­tekinn í Hlíðar­hverfi vegna brots á nálgunar­banni og fyrir að hafa í hótunum. Hann var vistaður í fanga­klefa vegna málsins.

Innbrot og slys

Tvö inn­brot voru til­kynnt til lög­reglu, annars vegar í geymslur í fjöl­býlis­húsi í Hafnar­firði þar sem ýmsu var stolið, meðal annars raf­magns­hlaupa­hjóli. Í hinu til­fellinu var um að ræða í­búðar­hús­næði í Kópa­vogi en ekki liggur fyrir hvort ein­hverju var þar stolið.

Slys komu einnig á borð lög­reglu þar sem öku­maður hafði ekið bíl sínum á vegrið í Háa­leitis- og Bú­staðar­hverfi. Öku­maðurinn var fluttur á slysa­deild til skoðunar og bíllinn fluttur af vett­vangi með krana­bíl.

Einnig var til­kynnt um tveggja bíla á­rekstur í Garða­bæ en báðir bílarnir reyndust ó­öku­færir eftir á­reksturinn. Öku­menn voru þó óslasaðir.