Lenda þurfti flugvél frá Ethiopian Airlines á Keflavíkurflugvelli á sunnudaginn vegna veikinda farþega um borð. Um var að ræða stúlkubarn sem veiktist og var það flutt með sjúkrabifreið á Barnaspítala Hringsins. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum.

Vélin var á leið frá Duabai til Baltimore þegar ákveðið var að lenda á Keflavíkurflugvelli vegna veikindanna. Vélin lenti um klukkan 07:30 og tók sjúkrabíll á móti henni við lendingu. Hún stoppaði hér í stutta stund en hélt svo áfram leiðar sinnar til Baltimore.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, sagði í samtali við Fréttablaðið að slíkar lendingar vegna veikinda væru nokkuð algengar á Keflavíkurflugvelli. Viðbrögð flugvallarins væru því orðin góð í slíkum aðstæðum.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um líðan stúlkunnar.