Tuttugu og sjö ein­staklingar þurftu að eyða ný­liðinni nótt í verslun IKEA í Ála­borg í Dan­mörku vegna snjó­komu og mikillar ó­færðar. Um var að ræða sex við­skipta­vini og tuttugu og einn starfs­mann.

Í frétt TV2 kemur fram að vel hafi farið um við­skipta­vini og starfs­fólk enda nóg af mat og drykk í versluninni og auð­vitað hús­gögn til að hvíla lúin bein.

Verslunar­stjórinn Peter Elmose segir að hópurinn hafi borðað saman kvöld­mat í gær­kvöldi, horft á jóla­daga­tal danska sjón­varpsins og svo á fót­bolta á risa­skjá.

Lög­reglan á Norður-Jót­landi hvatti veg­far­endur til að halda sig innan­dyra í gær­kvöldi vegna ó­færðar. Al­mennings­sam­göngur lágu einnig niðri um tíma vegna veðurs.

Peter segir að starfs­fólk hafi áttað sig á stöðunni um 4 leytið síð­degis í gær en þá fara vakta­skipti vana­lega fram. Sumir starfs­menn gátu hrein­lega ekki komist til vinnu og ekki leið á löngu þar til ljóst varð að þeir sem fyrir voru gátu ekki heldur komist heim. IKEA bauð því starfs­fólki og við­skipta­vinum að dvelja í versluninni í nótt og þiggja mat og drykk án endur­gjalds.

„Við vonum auð­vitað að þetta á­stand vari ekki lengi en við erum búin að búa um rúm fyrir alla sem eru á víð og dreif um verslunina,“ sagði Peter þegar TV2 ræddi við hann í gær­kvöldi.