Í skrifum sínum tekur Marteinn nokkur dæmi um það hvernig kerfið er að bregðast móður hans sem er á tíræðisaldri. Hún hefur komið við á mörgum stofnunum síðustu misseri, en hann minnist á Hrafnistu í Hafnarfirði, bráðamóttöku Landspítalans og öldrunardeild Landspítalans B4. Hann segir að á öllum stöðunum hafi þjónustan einkennst af því að öllum væri sama um móður hans.
„Mamma er því enn án þeirrar þjónustu sem hún þyrfti að fá. Hún er illa áttuð og líður illa af hreyfingarleysi og einveru. Aðstandendur mega takmarkað heimsækja hana, að sögn vegna Covid, og lítið hægt að gera til að bæta stöðuna. Einhvern veginn upplifum við eins og öllum sé bara sk…sama.“
Skipa nefndir en engar aðgerðir
Í samtali við Fréttablaðið segist Marteinn hafa verið kominn með nóg af því að horfa upp á stöðu móður sinnar, og segist hafa gengið í gegn um svipað fyrir tveimur árum þegar faðir hans var veikur. Hann hefur fengið mikil viðbrögð við pistlinum sem gefa til kynna að tilfelli móður hans sé ansi frá því að vera eina dæmið, en í dag hafa þónokkrir lýst svipaðri stöðu aðstandenda sinna og þakkað Marteini fyrir skrifin.
„Ég er ánægður með að þetta geti fengið fólk til að hlusta, en veit ekki hvort þetta nái í rétt eyru,“ segir Marteinn sem gagnrýnir úrlausnir stjórnvalda í málum sem þessum. „Lausnin virðist snúast um að skipa nefndir, en það er lítið sem ekkert um aðgerðir,“
Allir búnir að gefast upp
Gagnrýni Marteins beinist þó ekki eingöngu að stjórnvöldum. „Það eru einhvernveginn allir búnir að gefast upp finnst manni. Þegar maður vinnur í umhverfi sem er stöðugt undir gagnrýni þá virðist vonleysið ekki var langt undan,“
Marteinn segir til að mynda nánar frá einu dæminu sem hann nefnir í pistli sínum, sem varðar það þegar móðir hans var sett í afskekkt kjallaraherbergi og þurfti að líða gríðarlegan hávaða vegna framkvæmda, sem varð til þess að Marteinn tók hana af stofnuninni.
„Í afskekktu kjallaraherbergi þar vissi hún ítrekað ekkert hvar í heiminum hún væri og af hverju. Þar niðri var oftast ekki nokkra aðra sálu að sjá og mamma, sem ræður illa við að kalla eftir aðstoð með bjölluhnapp, gat lítið annað en bara grátið yfir bágborinni stöðu sinni. Þar tók reyndar steininn úr þegar ráðist var í framkvæmdir með múrbroti og öðrum hávaða. Ég kom að mömmu ælandi af höfuðkvölum vegna hávaðans. Þrátt fyrir samtal við vakthafandi stjórnanda heimilisins reyndist engin leið til að stöðva þessi læti. Ég neyddist því til að taka mömmu út af stofnuninni,“
Í samtali við blaðamann lýsir Mareinn því að hafa staðið fyrir framan umönnunaraðila móður sinnar sem honum fannst gera lítið til að aðstoða móður sína, og vildi frekar útskýra fyrir honum hversu erfitt sitt starf væri. Hann segir umönnunaraðillan hafa bent á að sýnir yfirmenn bættu sífellt við fólki á deildina án þess að spyrja starfsfólk hvort það réði við það.
Gæti haldið áfram langt fram á kvöld
Listinn af dæmum um erfiða stöðu móðurinnar sem ekki rötuðu í pistill Marteins er ekki tæmdandi segir hann og fullyrðir að hann gæti bæði skrifað marga pistla í viðbót og talað við blaðamann langt fram á kvöld án þess að endurtaka sig.
Marteinn segir til að mynda frá því þegar móðir hans var sett í herbergi um vetur þar sem enginn ofn var til staðar. Hann segir að ekki hafi stefnt í að neitt yrði gert í málinu, vegna þess að það væri svo erfitt að fá pípara.
„Þú setur ekki aldraða manneskju í frystikistu um hávetur og gerir ekkert í því vegna þess að það er svo erfitt að fá pípara,“
„Þú setur ekki aldraða manneskju í frystikistu um hávetur og gerir ekkert í því vegna þess að það er svo erfitt að fá pípara,“ segir hann og bætir við að hann hafi nánast þurft að öskra á starfsfólk svo eitthvað yrði gert í málinu, en að lokum var rafmagnsofni komið fyrir í herberginu.
Að sögn Marteins einkennist kerfið frekar af vandamálum en lausnum og hann óskar eftir að því verði snúið við.
Hægt er að lesa pistill Marteins sem birtist í Fréttablaðinu í heild sinni hér.