Þakklæti í bland við ótakmarkað æðruleysi hefur reynst mörgum alkóhólistanum besta ráðið á leið til þurra og þægilegra daga. Og undir það tekur Dóra Jóhannsdóttir, nýjasti viðmælandi Sigmundar Ernis í viðtalsþættunum Mannamáli á Hringbraut, en viðalið hefur vakið athygli fyrir einlægnina og hispursleysið sem stafar af orðum Dóru.
Þar lýsir hún baráttu sinni við Bakkus, ofvirkni og athyglisbrest – og lýsir á afar opinskáan hátt frá umskiptunum, en hún hefur verið edrú í þrjú ár og er komin á ADHD-lyf sem hafa umbreytt lífi hennar til hins betra.
En það er þetta með þakklætið. Dóra hafði týnt því á árum djamms og drykkju. Og það var eins og hún ætlaði ekki að finna það aftur. En í fimm mánaða meðferð úti í Svíþjóð, sem virtist ætla að takast, fór hún markvisst „að æfa þakklætisvöðvann“ eins og hún orðar það í viðtalinu. Þar hafi lausnin loksins komið. Hún þurfti að æfa sig og æfa í þakklæti.
Á hverjum degi hafi hún farið í langa og góða göngutúr í kringum sænsku meðferðarstöðina og hreinlega æft sig að þessu leyti – og lokum fór það svo að hún fann tilfinninguna. Og það skipti öllu máli, fyrir batann og fyrir lífið, fyrir hana sjálfa og alla í kringum hana.
Sjá má þetta brot úr viðtalinu hér.