„Ég kalla eftir því á vettvangi sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu verði tekin alvöru umræða um það hvernig Sorpu er stjórnað. Það á bæði við um fjárhagsstjórn og faglega stjórn fyrirtækisins,“ segir Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar-Neslista á Seltjarnarnesi.

Stjórn Sorpu samþykkti í gær tillögu um breytingar á fjárfestingaráætlun eftir að viðbótarkostnaður upp á tæpa 1,4 milljarða króna vegna tveggja verkefna kom í ljós. Er annars vegar um að ræða aukinn kostnað vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar upp á 637 milljónir. Hins vegar gleymdist að færa 719 milljóna króna kostnað vegna tækjabúnaðar úr fjárhagsáætlun 2018 í fjárfestingaráætlunina.

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, lét hafa eftir sér í yfirlýsingu að mistökin sem gerð hafi verið við áætlunina hafi verið óheppileg.

„Þau kalla á breytt vinnulag hjá okkur svo koma megi í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig. Til að bregðast við þessu stefnir fyrirtækið að því að draga úr fjárfestingum eftir því sem hægt er og semja við lánastofnanir um nýja fjármögnun,“ er haft eftir Birni.

Þá segir hann að sú leið sem farin verði krefjist ekki aðkomu sveitarfélaganna í formi nýrra stofnfjárframlaga, enda sé Sorpa stöndugt fyrirtæki.

Karl Pétur bendir á að ljóst hefði verið í byrjun júlí hvert stefndi. „Bæjarfulltrúum á höfuðborgarsvæðinu var farið að berast til eyrna eftir óformlegum leiðum um miðjan júlí að þetta gæti verið að gerast. Stjórn og stjórnendur Sorpu bíða svo í tvo mánuði með að upplýsa bæjarfulltrúa.“

Sorpa er í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og er eignarhluti tengdur við íbúafjölda þeirra.

„Þetta varpar kannski ljósi á hversu skrýtin stjórnunin er. Þarna eru sex stjórnarmenn, einn frá hverju sveitarfélagi, en engu að síður á Reykjavíkurborg 56,5 prósent í Sorpu. Við á Seltjarnarnesi eigum tvö prósent og erum líka með stjórnarmann eins og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Margt bendir til þess að stjórnin hafi alveg brugðist eftirlitshlutverki sínu í þessu máli,“ segir Karl Pétur.

Hann segir að upphæðin sé kannski ekki há fyrir Seltjarnarnes en það muni samt um 27 milljónir. „Þetta er svipað fjármagn og við höfðum til að malbika göturnar okkar í sumar. En þetta eru svakalegar tölur fyrir Reykjavík, einhverjar 770 milljónir.“

Hvað varðar faglega stjórn Sorpu telur Karl Pétur að áherslur í endurvinnslumálum hafi verið mjög skrýtnar og gamaldags.

„Ef við berum okkur saman við Akureyringa þá eru þeir komnir miklu lengra en við í endurvinnslu. Flestar alvöru borgir í Norður-Evrópu er líka komnar miklu lengra. Ég er hræddur um að fulltrúar okkar litlu sveitarfélaganna í jaðri höfuðborgarsvæðisins sem sitja í þessari stjórn þurfi aðeins að fara vinna fyrir kaupinu sínu.“