Borið hefur á litlum hópsýkingum að undanförnu tengdum einstaklingum sem greinst hafa við landamæraskimun. Af þeim sökum er nú talið sérstaklega mikilvægt að fylgjast vel með þeim sem greinast við komuna til landsins og tryggja gott upplýsingaflæði og eftirlit.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi í dag. Þetta sé gert til að lágmarka áhættuna á því að einstaklingarnir dreifi veirunni áfram.

„Það má alls ekki gerast að þessi litlu hópsmit verði að stórum hópsýkingum sem dreifist um samfélagið. Einnig verður lögð áhersla á að skima í kringum þessa einstaklinga og inn í fyrirtæki þar sem þeir kunna að hafa verið eða þessi smit kunna að hafa borist.“

Farið að bera á nýjum stofnum

Þórólfur bætti við að raðgreining sýna bendi til að hinn svokallaði blái stofn veirunnar sem hafi verið hvað mest áberandi að undanförnu sé nú á hraðri niðurleið. Á sama tíma sé farið að bera á nýjum stofnum sem megi í flestum tilfellum rekja til landamærasmits. Þó

„Þó er allavega ein hópsýking þar sem við getum ekki rakið upprunann. Þetta þýðir að við þurfum að einbeita okkur mjög vel að öllum smitum sem eru að greinast á landamærum.“

Næstu takmarkanir gildi út árið

Núverandi takmarkanir eru í gildi til 1. desember næstkomandi og sagði Þórólfur líklegt að hann myndi senda tillögur um áframhaldandi takmarkanir til heilbrigðisráðherra í kringum næstu helgi.

Hann vildi lítið gefa upp um það í hverju þær tillögur felast en sagði mjög líklegt að næstu takmarkanir muni gilda út árið.

Einnig megi gera ráð fyrir því að almennar leiðbeiningar varðandi veisluhöld og sýkingavarnir í kringum hátíðirnar verði birtar síðar í þessari viku.

Árangurinn verið mjög góður

Þórólfur sagði það gleðiefni að fáir einstaklingar hafi greinst með Covid-19 hér innanlands síðustu daga en einnig þyrfti að taka mið af því að færri sýni hafi verið tekin um helgina.

Fram kom í máli hans að enginn sjúklingur væri nú innlagður á Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna Covid-19 og að búið væri að færa spítalann af neyðarstigi.

„Árangurinn af aðgerðunum sem eru í gangi núna hefur verið mjög góður og við getum öll samglaðst yfir því en áframhaldandi árangur mun standa og falla með því hvernig okkur tekst að viðhalda þeim sýkingavörnum sem við erum sífellt að predika. Þannig að ég vil hvetja alla til að passa sig vel núna í framhaldinu og gæta vel að öllum sýkingavörnum hvort sem harðar takmarkanir eru í gangi eða ekki.“

Margt óráðið varðandi bóluefni

Líkt og fram hefur komið er vinna hafin hjá sóttvarnalækni við undirbúning á bólusetningu gegn Covid-19. Þórólfur sagði mikilvægt að árétta að margt sé óljóst varðandi dreifingu þeirra.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvenær verður hægt að afhenda bóluefnin, hvað við fáum mikið af einstaka tegundum. Þetta er allt óráðið en það er mjög mikilvægt að við verðum tilbúin þegar bóluefni kemur.“

Fréttin hefur verið uppfærð.