Talsverðar skemmdir urðu á gólfi Laugardalshallar í síðustu viku og líklegt er að það þurfi að skipta um gólfið. Samkvæmt framkvæmdastjóra Laugardalshallarinnar á eftir að rífa gólfið upp til að kanna skemmdir en talsvert hefur lekið í timburgrind undir gólfi og steinull sem er inni í grindinni.

„Það kom upp leki á miðvikudaginn síðasta og það lítur út fyrir að það sé töluvert mikið skemmt hjá okkur. Það bendir allt til þess að það þurfi að skipta um gólf,“ segir Birgir Bárðarson, framkvæmdastjóri Laugardalshallar, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann segir að sé þó enn verið að meta skemmdirnar en átti frekar von á því að það þyrfti að skipta um gólf en að þess þyrfti ekki. Hann sagðist telja líklegt að um tryggingamál væri að ræða.

„Við erum að reyna að þurrka þetta núna,“ segir Birgir.

Gólfið er mjög skemmt þó það sjáist ekki mikið á því.
Fréttablaðið/Valli

Urðu ekki var lekans fyrr en morguninn eftir

Hann segir að lekinn hafi komið upp þegar lögn brast aðfaranótt miðvikudags. Það sé verið að gera nýja snyrtiaðstöðu í tengibyggingu og þar hafi verið farið inn á heitavatnslögn sem hafi ítrekað verið prófuð á þriðjudeginum en að hún hafi brostið um nóttina og heitt vatn lekið um bygginguna. Birgir segir það miður að þau hafi ekki orðið þess vör fyrr en morguninn eftir.

Var mikið vatn sem lak?

„Það var mikið vatn sem lá yfir gólfinu en gólfið í Laugardalshöllinni er byggt aðeins öðruvísi en gólf í dag. Grindin sem er undir gólfinu, er um 50 ára gömul, og þar á milli er steinull sem er líka búin að þarna síðustu 50 árin. Allt þetta heldur miklu vatni og allt vatnið sem fór undir gólfið liggur að miklu leyti í steinullinni og timburgrindinni undir sem drekkur í sig heitt vatn. Við vitum ekki almennilega hvernig grindin er fyrr en gólfið verður opnað,“ segir Birgir.

Hann átti von á því að gólfið yrði opnað síðar í vikunni.

„Núna er verið að skoða allar mögulegar leiðir. Þetta hefur auðvitað gífurlega mikil áhrif á íþróttastarf sem á að hefjast á miðvikudaginn. En við erum að leita lausna,“ segir Birgir.

Hann býst fastlega við því að íþróttastarf muni fara fram en segir að það gætu orðið einhverjar takmarkanir á því.

„Það byrjar barna- og unglingastarfið á miðvikudag. Þú labbar kannski ekki inn á gólfið eins og þú gekkst inn á það fyrir COVID en ég er alls ekki svartsýnn á að við leysum ekki úr þessum hlutum,“ segir Birgir að lokum.