Allur gangur er á upprunamerkingum á kryddlegnum og unnum kjötvörum. Samkvæmt íslenskum lögum, byggðum á Evrópureglum, er skylt að hafa upprunamerkingar á fersku kjöti. Engar slíkar kröfur eru á kryddlegið og unnið kjöt.

Í stórmarkaði sem Fréttablaðið heimsótti voru sumar kryddlegnar og unnar kjötvörur upprunamerktar. Flestar pakkningarnar voru frá Íslandi en þó nokkrar merktar öðrum löndum, einkum Danmörku. Sumar voru þó ekki merktar. Dæmi eru um mismunandi merkingar innan sömu vörulínu á alifuglakjöti. Það er ein varan var merkt Íslandi en önnur ekki merkt, en báðar með sama útlit og íslenska fánann á umbúðunum.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær eru íslenskir kjötframleiðendur stórtækir í kaupum á evrópskum tollkvóta. Kaupa þeir 90 prósent af innfluttu svínakjöti, 43 prósent af nautakjöti og 34 prósent af alifuglum.

Katrín Guðjónsdóttir, fagsviðsstjóri neytendaverndar hjá Matvælastofnun, segir að ekki hafi komið upp tilvik í þeirra eftirliti þar sem sýnt hafi verið fram á vísvitandi blekkingar. Fyrir rúmu ári innkallaði Stjörnugrís að eigin frumkvæði pólskar kjúklingabringur sem voru merktar sem íslenskar eftir athugasemd stofnunarinnar.

Matvælastofnun skoðar hins vegar aðeins merkingar í framleiðslufyrirtækjunum sjálfum, kjötvinnslum og sláturhúsum. Heilbrigðiseftirlitin hafa eftirlit með merkingum í verslunum, heildsölum og veitingastöðum.

Þó að löggjöf um upprunamerkingar eigi ekki við um kryddlegið og unnið kjöt segir Katrín að þær merkingar sem gerðar eru verði að vera réttar. „Við myndum ekki telja það í lagi að upprunamerkja kryddlegið kjöt sem íslenskt ef uppruni kjötsins er erlendur,“ segir hún. „Það myndi teljast villandi eða blekkjandi sem er óheimilt samkvæmt lögum um matvæli og reglugerðum með stoðum í þeim.“

Bregðist fyrirtæki ekki við ábendingum eftirlitsstofnana er hægt að veita áminningu og beita dagsektum. Í alvarlegustu tilvikunum er hægt að fara fram á innköllun eða stöðvun starfsemi fyrirtækis.

Eins og áður segir er löggjöfin byggð á Evrópureglum en ýmsir velta fyrir sér hvers vegna íslensk stjórnvöld ganga ekki lengra til að verja neytendur hvað þetta varðar. Til dæmis Bændasamtökin sem þrýst hafa á hertar reglur um upprunamerkingar en talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda.

„Það er mjög sérkennilegt að hreinn vöðvi þurfi að vera upprunamerktur en ekki sá sem búið er að setja smá krydd á,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna. Aðspurður segir hann að málið snúist að mestu leyti um upplýsingarétt neytenda en ætti einnig að skipta framleiðendur máli. „Sem neytandi finnst mér mikilvægt að fá að vita hvað ég er að kaupa,“ segir hann.