Utan­ríkis­ráðu­neyti Kína segir það ekki rétt að banda­rískir diplómatar sem koma til landsins þurfi að fara í enda­þarms­sýna­töku vegna CO­VID-19 eftir að greint var frá því að nokkrir höfðu kvartað yfir slíkum sýna­tökum í fjöl­miðlum.

Kín­verjar tóku upp á því að skima fyrir kóróna­veirunni í enda­þarmi í síðasta mánuði en kín­verski ríki­smiðillinn CCTV greindi frá því í lok janúar að slík sýni hafi verið tekin úr í­búum í á­kveðnum hverfum. Að sögn yfir­læknis á spítala í Peking var það gert þar sem slík sýni eiga að vera á­reiðan­legri.

Zhao Lijian, tals­maður kín­verska utan­ríkis­ráðu­neytisins, greindi frá því á blaða­manna­fundi í Peking að þau hafi ekki neina vit­neskju um að enda­þarms­sýni hafi verið tekin úr banda­rískum diplómötum sem stað­settir eru í Kína.

Banda­ríski miðillinn Vice hefur það eftir em­bættis­manni innan ráðu­neytisins að diplómatar þurfi ekki að fara í enda­þarms­sýna­töku en ef það hafi verið gert, hafi verið um mis­tök að ræða. Í sam­tali við Reu­ters sagði full­trúi ráðu­neytisins að öryggi og virðing diplómata sé í há­vegum höfð.