Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir, stað­gengill sótt­varna­læknis, segir grímu­notkun ekki vera þá ráð­stöfun sem yfir­völd treysta best til að koma í veg fyrir CO­VID-19 smit en að hún geti hjálpað til við að draga úr dreifingu þar sem ekki er hægt að við­halda tveggja metra fjar­lægð milli ein­stak­linga.

„Við treystum betur á fjar­lægðar­ráð­stöfunina en þar sem er ekki hægt að nota hana, og það eru ó­skyldir ein­staklingar sem geta ekki sagt til um hverjir voru í grennd við þá, þá gæti þetta hjálpað til við að draga úr frekari dreifingu,“ segir Kamilla í sam­tali við Frétta­blaðið.

Erfit að rekja smit þegar fólk notar almenningssamgöngur

Líkt og greint var frá fyrr í dag taka hertar sótt­varna­reglur gildi á há­degi á morgun en meðal helstu breytinga eru 100 manna fjölda­mörk og að tveggja metra reglan sé aftur skylda. Í al­mennings­sam­göngum og á fleiri stöðum þar sem ekki er hægt að tryggja tvo metra á milli ein­stak­linga þarf fólk að vera með grímur sem hylja munn og nef.

Þetta er í fyrsta sinn sem til­mæli yfir­valda hér á landi fela í sér grímu­notkun en að sögn Kamillu kemur það nú til þar sem erfitt er að rekja smit þegar fólk nýtir sér al­mennings­sam­göngur, til að mynda frá flug­vellinum. Gífurleg aukning hefur verið í sölu einnota gríma vegna tilmælanna.

„Það var þannig að sam­göngur á milli flug­vallarins og höfuð­borgarinnar voru bara lokaðar því það mátti ekki vera í sótt­kví í al­mennings­sam­göngum. Núna er þessi heim­komu­smit­gátt komin og eftir skimunina þá máttu fara í al­mennings­sam­göngur,“ segir Kamilla og bætir við að erfitt sé að rekja smit þegar fólk hefur ferðast með ó­skyldum ein­stak­lingum.

Nauðsynlegt að virða tveggja metra regluna þegar völ er á

Hún bætir þó við að reglurnar eigi helst um al­mennings­sam­göngur og aðra staði þar sem stærð rýmisins er tak­markandi. Þannig geti fólk ekki virt tveggja metra regluna að vettugi til að mynda á skemmti­stöðum. „Al­mennings­sam­göngur geta ekki tryggt tveggja metra fjar­lægð. Skemmti­staðir, ef þeir eru stærri, geta það,“ segir Kamilla.

Að­spurð um hvort grímureglan nái að­eins til þeirra sem þurfa að við­hafa heim­komu­smit­gátt segir Kamilla að verið sé að út­færa þær reglur nánar en að grímu­notkun sé ekki endi­lega háð því hvort ein­stak­lingurinn er í heim­komu­smit­gátt.

„Ef við ætlum að setja grímu­reglur fyrir þá sem að geta ekki verið í tveggja metra fjar­lægð, það getur verið hvort sem þú ert í heim­komu­smit­gátt eða ekki,“ segir hún.