„Þetta er nú með erfiðari spurningum sem eldfjallafræðingar fá,“ segir Kristín Jónsdóttir, eldfjalla- og jarðskjálftafræðingur, spurð að því hvað þurfi til að eldgosi líku og því sem nú er í Geldingadölum sé sagt lokið.

„Það er ýmislegt sem kemur þar inn í,“ segir Kristín. „Við þurfum að pæla í þeim hættum sem eru á svæðinu og það er talsvert -af hrauni sem hefur safnast fyrir í hraunbreiðunni nálægt gígnum. Þar hefur myndast hrauntjörn og yfir henni er þunn skel,“ bætir hún við.

Í gær var liðinn mánuður frá því að kvika rann síðast upp úr gígnum í Geldingadölum og segir Kristín að það þurfi þó ekki að þýða að gosinu sé lokið. „Akkúrat núna í dag eru ekki miklar hreyfingar þarna eða mikið að frétta og maður spyr sig hvort þetta sé alveg búið og það getur alveg verið en það getur líka alveg verið að virknin taki sig upp að nýju og það eru mýmörg dæmi um að það komi svona pásur í eldgosum,“ segir Kristín. Þá segir hún slíkar pásur jafnvel geta varað mánuðum saman.

Kristín Jónsdóttir eldfjallafræðingur.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Við sjáum greinilega á þeim mælingum sem við erum að gera á hraunbreiðunni að þó að það sé ekkert nýtt að koma upp úr gosrásinni þá er hraunið enn að renna, hreyfa sig og jafna sig,“ segir Kristín og vísar til þess að svarta hraunið sem sjáist vel á gossvæðinu hylji heitt logandi hraun sem sé á hreyfingu þar undir. Einnig stígi enn upp gas bæði úr gígnum sjálfum og hraunbreiðunni.

Aðspurð segir Kristín það hættulegt að ganga á hraunbreiðunni vegna logandi hraunsins sem undir henni sé. Efsta lag hraunsins sé kólnað og harðnað og virki einangrandi á glóandi hraunið sem undir því leynist. „Efsta lagið er mjög þunnt. Þú getur ímyndað þér rosalega góðan hitabrúsa sem heldur miklum hita á hrauninu. Það er mjög heitt og það sést jafnvel í glóð í gegn á kvöldin. Það er mjög óskynsamlegt að vera á einhverju vappi yfir hraunbreiðuna,“ segir hún.

Þegar gosið hófst í Geldingadölum þann 19. mars á þessu ári, fyrir sléttum sjö mánuðum síðan, var haft eftir hinum ýmsu jarðvísindamönnum og -konum að hafið væri nýtt eldsumbrotatímabil á Reykjanesi sem gæti varað árum saman. Kristín segir slíkt tímabil geta varað í 2-300 ár og að ómögulegt sé að segja til hvað gerist næst.

„Svona tímabil er miklu lengra en mannsævi, við erum alltaf að tala á jarðfræðiskala,“ segir Kristín. „En ef við erum dottin inn í tímabil þar sem er mikil virkni þá getum við alveg búist við því að það verði kannski gos á Reykjanesskaga á nokkurra ára fresti.“