Ráða þarf sérstaklega inn landverði til að sinna vinnu við Meradali vegna eldgossins og hefur ráðuneytið gefið grænt ljós á ráðningar.

Ásta Kristín Davíðsdóttir, yfirlandvörður á Suðvesturlandi, gerir ráð fyrir að sex til átta landverðir verði ráðnir sérstaklega vegna eldgossins.

Umhverfisstofnun mun auglýsa starfið í dag, að sögn Ástu Kristínar, en hún vonast til að landverðirnir geti tekið til starfa strax um mánaðamótin.

Björgunarsveitarfólk að störfum í gær.
Fréttablaðið/Björn Þorláksson

Tveir til þrír á vakt

„Við myndum alltaf vera með tvo landverði á staðnum á virkum dögum og upp í þrjá í einu,“ segir Ásta Kristín og bætir við að landverðir í Meradölum muni vinna út frá talningum á fjölda gesta.

Þannig muni landverðirnir ná til sem flestra sem heimsækja eldgosið.

„Við vorum með landvörslu alveg framundir vor núna síðast, þó að gosið væri löngu hætt,“ segir Ásta Kristín en starf þeirra snýst allra helst um fyrirbyggjandi fræðslu á svæðinu.

„Við reynum að segja fólki frá erfiðleika, búnaði og veðri. Svo er náttúrulega að vera í sambandi við aðra aðila á svæðinu, lögreglu, sveitarfélag og björgunarsveitaraðila,“ segir Ásta Kristín aðspurð um starf landvarða.

Reyna ná til flestra

Landverðir við Meradali munu starfa í vöktum yfir þann tíma sem flestir eru að fara á svæðið.

Ásta Kristín segir Umhverfisstofnun vinna það út frá þeim talningarvélum sem notaðar hafa verið við gosið og að það hafi tekist mjög vel til síðast.

Að sögn Ástu Kristínar fara mun fleiri ferðalangar um svæðið yfir daginn en á kvöldin.

Björgunarsveitarfólk hafði í nægu að snúast um helgina.
Fréttablaðið/Björn Þorláksson
Gosið í gærkvöldi.
Fréttablaðið/Björn Þorláksson