Von er á nokkrum vélum sem koma frá svo­kölluðum rauðum svæðum síðar í dag en allir þeir sem koma til landsins frá löndum eða svæðum þar sem 14 daga ný­gengi er 700 eða meira á hverja 100 þúsund íbúa þurfa að dvelja á sótt­kvíar­hóteli.

Að sögn Gylfa Þórs Þor­steins­sonar, for­stöðu­manns far­sótta­húsa Rauða krossins, er við­búið að fjöldi ferða­manna muni koma inn á hótelin í dag og er verið að undir­búa það að nýta hótel sem hefur hingað til verið notað fyrir þá sem eru í sótt­kví innan­lands fyrir ferða­menn.

„Við erum búin að færa þá gesti sem þar voru yfir á hótel Lind, sem er far­sótta­húsið okkar, þannig að við verðum þá alla vega klár með nýtt hótel ef á þarf að halda, sem er ekki ó­lík­legt miðað við þann fjölda ferða­manna sem er að koma í dag,“ segir Gylfi í sam­tali við Frétta­blaðið um málið.

500 gestir á fimm hótelum

Eins og staðan er í dag eru fjögur sótt­kvíar­hótel nú í notkun í Reykja­vík og eitt á Egils­stöðum, auk þess sem far­sótta­húsið á Rauðar­ár­stíg er á­fram til taks. Með hótelinu sem áður var getið telur Gylfi að laus her­bergi séu nú hátt í 150.

„Það er reyndar tölu­vert af sýna­tökum í dag en þá á náttúru­lega eftir að þrífa þau her­bergi, hvort við náum því fyrir kvöldið er ég ekki viss um en þau verða þá alla vega klár fyrir morgun­daginn,“ segir Gylfi en um það bil 500 manns dvelja nú á sótt­kvíar­hótelunum öllum.

Að sögn Gylfa eru þau að­eins með upp­lýsingar um komu far­þega þrjá daga fram í tímann en ljóst er að ferða­mönnum muni fjölga á næstunni. „Það þýðir að við þurfum að hafa okkur öll við, bæði í sýna­töku og þrifum, til þess að hafa undan og vonandi þurfum við ekki að opna fleiri hótel á næstu dögum, en ef þess þarf þá erum við svo sem með uppi í bak­höndinni eina lausn í við­bót, eða svo.“

Fékk hríðir á hótelinu

Að­spurður um hvort veikindi hafi komið upp meðal gesta ný­verið segir Gylfi að það sé mjög lítið um slíkt. „Þó það komi alltaf upp eitt og eitt já­kvætt svar úr sýna­tökunni þá er það nú ekki meira en við var að búast. En það hefur verið mjög lítið um önnur veikindi hjá okkur.“

Ein kona fékk þó hríðir í gær, líkt og Vísir greindi frá fyrr í dag, og var flutt á spítala þar sem hún fæddi barn sitt. „Fjöl­skylda hennar sem kom með henni hingað til landsins fer í sýna­töku í dag og losnar þá vonandi og getur heim­sótt þennan nýja ein­stak­ling í dag.“