Sex manna fjölskylda sem þarf endurnýja dvalarleyfi sitt hérlendis þarf að greiða 90 þúsund krónur fyrir það, samkvæmt gjaldskrá Útlendingastofnunar.
Þórunn Ólafsdóttir, vakti athygli á málinu en Útlendingastofnun hefur staðfest upphæðina i samtali við Fréttablaðið.
Gjaldið er samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs en í þeim lögum er enginn greinarmunur gerður á börnum eða fullorðnum einstaklingum. Allir sem þurfa að endurnýja dvalarleyfið sitt þurfa greiða 15 þúsund krónur.
„Þeir sem að koma til Íslands og sækja um alþjóðlega vernd og fá síðan dvalarleyfi með stöðu flóttamanns þurfa ekki að greiða fyrir fyrsta leyfið. Það gildir í fjögur ár. Sem er miklu lengri tími en öll önnur dvalarleyfi,“ segir Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar
Í því samhengi bendir hún á að námsmaður fær bara dvalarleyfi í eitt ár.
„Að fjórum árum liðnum eiga þeir rétt á því að sækja um ótímabundið dvalarleyfið. Þannig það er ekki mikið um það að flóttamenn séu að endurnýja dvalarleyfin sín. Því yfirleitt fara þeir beint úr dvalarleyfi flóttamanns í ótímabundið dvalarleyfi en það kostar hins vegar,“ segir Þórhildur.
Hún bendir jafnframt á að gjaldið sé lægra hérlendis en í löndunum í kringum okkur.

Vinafólk með stöðu flóttafólks þarf að endurnýja dvalarleyfin sín. Fyrir utan hversu flókið og stressandi ferli það er, þá kostar hver umsókn 15.000 kr. Það gera 90.000 fyrir fjölskylduna alla.
— Þórunn Ólafsdóttir (@Thorunnolafsd) December 11, 2020
Er ég ein um að finnast þetta gjörsamlega galið fyrirkomulag?