Sex manna fjöl­skylda sem þarf endur­nýja dvalar­leyfi sitt hér­lendis þarf að greiða 90 þúsund krónur fyrir það, sam­kvæmt gjald­skrá Út­lendinga­stofnunar.

Þórunn Ólafs­dóttir, vakti at­hygli á málinu en Út­lendinga­stofnun hefur stað­fest upp­hæðina i sam­tali við Frétta­blaðið.

Gjaldið er sam­kvæmt lögum um auka­tekjur ríkis­sjóðs en í þeim lögum er enginn greinar­munur gerður á börnum eða full­orðnum ein­stak­lingum. Allir sem þurfa að endur­nýja dvalar­leyfið sitt þurfa greiða 15 þúsund krónur.

„Þeir sem að koma til Ís­lands og sækja um al­þjóð­lega vernd og fá síðan dvalar­leyfi með stöðu flótta­manns þurfa ekki að greiða fyrir fyrsta leyfið. Það gildir í fjögur ár. Sem er miklu lengri tími en öll önnur dvalar­leyfi,“ segir Þór­hildur Haga­lín, upp­lýsinga­full­trúi Út­lendinga­stofnunar

Í því sam­hengi bendir hún á að náms­maður fær bara dvalar­leyfi í eitt ár.

„Að fjórum árum liðnum eiga þeir rétt á því að sækja um ó­tíma­bundið dvalar­leyfið. Þannig það er ekki mikið um það að flótta­menn séu að endur­nýja dvalar­leyfin sín. Því yfir­leitt fara þeir beint úr dvalar­leyfi flótta­manns í ó­tíma­bundið dvalar­leyfi en það kostar hins vegar,“ segir Þór­hildur.

Hún bendir jafn­framt á að gjaldið sé lægra hér­lendis en í löndunum í kringum okkur.

Gjaldskrá vegna umsóknar um dvalarleyfi.