Ný rannsókn á fjórum lundastofnum í Norður-Atlantshafi sýnir að fækkun er líklega tengd því að fuglarnir þurfi að fljúga lengra eftir fæðu fyrir ungana. Þetta getur reynst þeim erfitt enda fer mikil orka í flug og skilar sér í færri fæðuöflunarferðum.

„Því lengur sem þeir fljúga eftir fæðunni því lélegri verður ungaframleiðslan,“ segir Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, sem er einn meðhöfunda að rannsókninni. Rannsóknin var gerð í Vestmannaeyjum, Grímsey, Lófóten í Norður-Noregi og Skomereyju við Wales. Örsmáir GPS-sendar voru festir á fuglana og sjálfvirkar myndavélar við lundaholur. Þá var gerð erfðafræðileg greining á DNA í lundasaur til að greina hvað lundarnir éta.

Vitað hefur verið lengi að lundastofninn ætti erfitt og á Íslandi hefur verið um 40 prósent fækkun á um tveimur áratugum. Dregið hefur úr þessari fækkun hér á undanförnum árum. Það sama er ekki hægt að segja um Lófóten þar sem fækkunin hefur verið mest og staðið frá 1965, en þar var eitt sinn stærsta lundavarp heims.

Helsta ástæðan er fæðuskortur og breytingar á vistkerfi hafsins, svo sem hækkun hita. Lundi var settur á válista náttúruverndarstofnunarinnar IUCN árið 2015. Á meðan á rannsókninni stóð í Eyjum drapst helmingurinn af lundapysjunum í Vestmannaeyjum, og þar með talið allar rannsóknarpysjurnar.

Erpur segir að lundarnir hafi þá verið að fljúga mjög langt, allt að 120 kílómetra leið, í leit að æti.

„Ljósáta er orðin aðalfæða lundans við Vestmannaeyjar eftir að makríllinn færði sig frá Selvogsbanka,“ segir Erpur. „Stofninn í Eyjum hefur verið að braggast undanfarin ár en þó geta komið tímabil þar sem fuglarnir ná ekki í neina fæðu, sama hversu langt þeir fljúga, og stór hluti unganna drepst, eins og 2018.“

Veðurfar getur einnig haft áhrif, til dæmis lægðabreytingarnar (NAO) eins og gerðust við Ísland árið 2010.

„Íslandslægðin færðist austur fyrir allt árið, og olli tímabundnum umskiptum í ríkjandi vindáttum og veðri.

Við sáum svakaleg viðbrögð hjá lundanum við þessu og það drápust allir ungar á örfáum dögum, sunnan-, vestan- og austanlands. Í Papey 2010 lágu 130 þúsund ungar eins og hráviði úti um allt og bókstaflega dauðalykt í loftinu. Hálfur ungi á fermetra.

Athyglisvert var að varpárangur var líka mjög lélegur árið eftir þótt NAO væru eðlilegri þá, og tel ég mörg lundapörin hafa ýmist skilið eftir 2010 eða allavega ekki treyst sér í varp 2011, að þarna hafi verið svokölluð „carry-over effect“, að hallærið 2010 hafi líka haft mikil áhrif árið eftir. Í Eyjum afræktu 80 prósent varppara eggin sín 2011 og yfirgáfu svæðið.“

Aðspurður hvað mannfólkið geti gert til að sporna við þessari þróun segir Erpur veiðar vera það eina sem við getum breytt í okkar aðkomu. Veiðar á lunda hafi þegar minnkað um 95 prósent frá 1995. „Veiðarnar sem stundaðar eru nú hafa ekki úrslitaáhrif en ef þeim yrði hætt myndi það flýta fyrir að stofninn næði sér hraðar og betur á strik hér við Ísland,“ segir Erpur.