Aflýsa þarf fjölda áætlunarferða til Keflavíkurflugvallar næstu daga þar sem
afkastageta í smitprófunum á komufarþegum er ekki nægjanlega mikil. Frá þessu er greint á vef Túrista.

Samkvæmt heimildum Túrista þarf að aflýsa allt að átján áætl­un­ar­ferðum til Kefla­vík­urflugvallar­ dag­ana 15. til 21. júlí. Ekki ligg­ur fyr­ir hvernig velja eigi hvaða flug­fé­lög fá að koma og hver ekki. Icelanda­ir er með um helm­ing af öll­um flug­ferðum til og frá land­inu þessa dag­ana.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsis hefur Icelandair fengið þau tilmæli að fella þurfi niður einhverjar ferðir félagsins á næstunni vegna takmarkaðrar skimunargetu.

Fór yfir 2000 á fimmtudag

Nokkur vöxtur hefur verið í fjölda komufarþega á Keflavíkurflugvelli á síðustu vikum en afkastageta landamæraskimunarinnar hefur takmarkast við tvö þúsund sýni á dag.

Á fimmtudag fór fjöldi sýna í fyrsta sinn yfir þau mörk frá því að skimunin hófst þegar 2.159 sýni voru tekin við komu farþega til landsins.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, sagði í samtali við Fréttablaðið á föstudag að fjöldinn hafi rúmast innan viðmiða sóttvarnalæknis.

Þó væri áfram reynt að takmarka fjölda komufarþega við tvö þúsund á sólarhring.

Á laugardag voru 2.040 sýni greind á landamærunum.

„Það er ákveðið svigrúm sem við höfum þannig að þetta er eitthvað sem var alveg fyrirséð að gæti gerst. Þegar svona ber upp þá er hægt að afgreiða aðeins fleiri sýni en við miðum við. Þannig að þetta er eitthvað sem við ráðum alveg við," sagði Kjartan.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við Fréttablaðið, að ef útlit er fyrir að fjöldi komufarþega á Keflavíkurflugvelli fari umfram áðurnefnda skimunargetu sé það á hendi sjálfstæðs samræmingarstjóra að gæta þess að fjöldinn haldist innan marka.

Vill skýrari reglur

Sá starfar á vegum fyrirtækisins Airport Coordination og er skipaður af Samgöngustofu. Haft er eftir danska samræmingarstjóranum Frank Holton í frétt Túrista að hann vilji fá skýrari reglur frá íslenskum stjórnvöldum um hvaða flugferðir skuli fella niður við slíkar aðstæður.

Isavia segir það verkefni samræmingarstjórans að fækka flugferðunum. Holton segir í samtali við Túrista að hann geti svipt flugfélög lendingartímum en að ákvörðunin um hverja eigi að svipta verði að koma frá Samgöngustofu.

„Þaðan þurfa að koma leiðbeiningar um hvernig velja eigi á milli flugferða við þessar sérstöku aðstæður.”

Þá sagði hann þörf á því að auka afkastagetuna í smitprófunum upp í þrjú þúsund sýni á dag á næstu tveimur vikum til að koma í veg fyrir niðurfellingu á flugferðum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur gefið út að til standi að endurskoða fyrirkomulag landamæraskimunarinnar um næstu mánaðarmót.