Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka til meðferðar kærur tólf pólskra kvenna á þrítugs- og fertugsaldri, um brot pólska ríkisins á rétti þeirra til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Grundvöllur kæranna er hert löggjöf í Póllandi um þungunarrof.

Í tilkynningu á vef MDE kemur fram að dómstólnum hafi borist yfir þúsund kærur frá Póllandi vegna hinna hertu laga, en pólskum stjórnvöldum hefur nú verið gert viðvart um að tólf kærur verði teknar til meðferðar á grundvelli ákvæða í reglum dómsins um sérstaka forgangsmeðferð.

„Það er eftirtektarvert að MDE veiti þessu máli forgangsmeðferð og sýnir ákveðna afstöðu dómstólsins,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingkona Samfylkingarinnar, sem lýsir ánægju með ákvörðun Mannréttindadómstólsins. Rósa Björk lagði fram þingsályktunartillögu í fyrra um viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir konur sem hingað ferðast til að fá þungunarrof. „Hún var sett fram í þeim tilgangi að styðja við pólskar konur og réttindabaráttu þeirra."

Rósa segir niðurstöðu pólska dómstólsins hluta af alvarlegu bakslagi kvenréttinda í aðildarríkjum Evrópuráðsins og kallar niðurstöðuna „frekleg afskipti dómstólsins yfir líkömum kvenna og sjálfsákvörðunarrétti kvenna.“

Ferill breytinga á lögum um þungunarrof er rakinn stuttlega í tilkynningu Mannréttindadómstólsins. Þar þar segir að í júní 2017 hafi 104 þingmenn óskað eftir því við stjórnskipunardómstól landsins, að ákvæði þungunarrofslaganna sem heimila þungunarrof vegna fósturgalla, yrðu dæmd andstæð stjórnarskrá. Dómstóllinn fjallaði ekki um kröfuna en eftir þingkosningar árið 2019 hafi sambærileg krafa aftur verið send dóminum sem féllst á hana og kvað upp dóm, um að ákvæði um heimild til þungunarrofs vegna fósturgalla væru andstæð stjórnarskrá.

Í kjölfar dómsins var tekið upp nýtt verklag á fjölda sjúkrahúsa í Póllandi og konum synjað um þungunarrof þrátt fyrir fósturgalla. Mikil mótmæli fylgdu í kjölfarið og var meðal annars mótmælt á Íslandi.Í október í fyrra kynnti forseti Póllands nýtt frumvarp sem kveður á um að þungunarrof sé heimilt í tilvikum fósturgalla, en aðeins ef hann er banvænn. Frumvarpið er nú til meðferðar í einni af nefndum pólska þingsins.

Í kærum sínum til dómsins kvarta konurnar meðal annars yfir broti á rétti til friðhelgi einkalífs og fjölskyldulífs vegna skyldu til að ljúka fullri meðgöngu og aðlaga allt líf sitt mjög breyttum veruleika. Margar kvennanna eru komnar nálægt fertugu en lýsa vilja til að stofna fjölskyldu, en treysti sér ekki til að fæða og ala upp alvarlega veikt barn. Þær vísa einnig til ákvæðis um bann við ómannúðlegri meðferð vegna kvíða og andlegra þjáninga sem fylgt geti því að þurfa að ganga með og fæða alvarlega veikt eða andvana barn.

Þær vísa sérstaklega til þess að dómur stjórnskipunardómstólsins hafi ekki gildi vegna þess að hluti dómaranna sem kváðu hann upp hafi ekki verið skipaðir með lögmætum hætti, þá hafi forseti réttarins, áður en hann var skipaður við réttinn, verið í hópi þeirra þingmanna sem sendu fyrri kröfuna til dómsins.Í spurningum sínum til pólskra yfirvalda óskar MDE meðal annars eftir svörum um hina meintu ólögmætu skipun og vísar til hins nýja fordæmis réttarins í Landsréttarmálinu íslenska.