Pól­verjar á Ís­landi efndu til mót­mæla fyrir framan pólska sendi­ráðið í Reykja­vík í kvöld. Til­efni mót­mælanna var dauði þrí­tugrar pólskrar konu í septem­ber sem upp­lýst var um í síðustu viku. Konan, sem hét Iza­bella og bjó í bænum Pszczyna, lést eftir að henni var synjað um þungunar­rof þrátt fyrir að al­var­legir gallar hefðu birst á fóstrinu og líf hennar væri í hættu.

„Læknarnir vildu bíða þar til hjarta fóstursins hætti að slá.“

Dauði Iza­bellu hefur leitt til fjölda­mót­mæla í Pól­landi gegn ströngum lögum gegn þungunar­rofi sem tóku gildi í fyrra. Lögin bönnuðu þungunar­rof að mestu að undan­skildum til­vikum þar sem um nauðgun eða sifja­spell er að ræða. Form­lega er einnig heimilt að rjúfa með­göngu til að bjarga lífi eða heilsu móðurinnar en þar sem læknar geta átt hættu á fangelsis­dómi fyrir að fram­kvæma þungunar­rof án þess að skýr skil­yrði séu upp­fyllt telja and­stæðingar laganna ekki að heilsu kvenna sé gætt með þessum undan­tekningum.

„Hjarta hennar sló líka“.
Mynd: Aðsend

„Læknarnir vildu bíða þar til hjarta fóstursins hætti að slá,“ sagði Wiola Ujazdowska, skipuleggjandi mótmælanna, sem bera nafnið „Ekki ein önnur“ eða Ani jednej więcej. „Því miður lifði Izabella ekki af. Pólverjar fóru út á götur til að minnast hennar. Svo hefur spurst út að önnur kona að nafni Anja var þvinguð til að fæða dautt barn og lést sjálf í kjölfarið. Það eru að koma fleiri og fleiri sögur af konum sem voru neyddar til að fæða börn sem létust strax eftir á.“

Wiola segist vilja sýna löndum sínum heima fyrir stuðning. „Þetta verða þögul mótmæli þar sem við kveikjum á kertum til þess að minnast kvennana sem létust út af þessum ómannúðlegu þungunarrofslögum. Við erum óformlegur hópur pólskra kvenna á Íslandi sem skipulögðum þetta. Það hafa hátt í 180 manns sýnt viðburðinum áhuga, sem kom mér skemmtilega á óvart. Bæði Pólverjar og einhverjir Íslendingar og fólk annars staðar frá hefur sýnt okkur stuðning, sem er mjög hughreystandi.“

Mynd: Aðsend

„Sífellt fleiri konur að flytja burt frá landinu því þær vilja ekki fæða eða ala upp börn þar.“

Að sögn Wiolu hafa svipuð samstöðumótmæli farið fram meðal Pólverja við pólsku sendiráðin í Ósló, Lundúnum og Berlín. Að auki var mótmælt við heimili eins dómarans við pólska stjórnlagadómstólinn sem býr í Berlín. Wiola segir þó að pólska samfélagið á Íslandi sé ekki samstíga í afstöðu sinni til þungunarrofslaganna og að við skipulagningu mótmælanna hafi borist nokkrar athugasemdir frá stuðningsmönnum þeirra sem ekki voru hrifnir af tilætlununum. „Við erum sundruð í málinu, eins og flest samfélög.“

Wiola býst ekki við því að pólski sendiherrann, Gerard Pokruszyński, muni gefa mótmælendunum mikinn gaum. „Ég veit að sendiherrann er ötull stuðningsmaður stjórnarflokksins, Laga og réttlætis. Hann stendur nákvæmlega fyrir það sem við erum að berjast gegn. Helmingi okkar finnst hann og hans viðhorf ekki eiga við okkur.“

„Ég hef heyrt helling af sögum því ég er nýkomin frá Póllandi,“ segir Wiola. „Það eru ótal faldar sögur af konum sem hafa dáið, slasast eða þurft að glíma við heilsukvilla eftir að þeim var synjað um þungunarrof. Þetta hefur verið að gerast síðan 1993 því læknar óttuðust oft að rjúfa meðgöngu. Nú gerist þetta enn oftar en áður fyrr. Ég hef áhyggjur af heilsu kvenna í Póllandi og ég veit að það eru sífellt fleiri konur að flytja burt frá landinu því þær vilja ekki fæða eða ala upp börn þar.“

„Þessi dauðsföll eru einfaldlega hluti af veruleikanum sem fylgir svona lögum,“ segir Wiola. „Þau eru eins og martröð að rætast.“

#Nei við pólsku kvennavíti.
Mynd: Aðsend