Verjendur Claudiu Sofiu Coel­ho Car­va­hlo og Shpetim Querimi sem voru bæði sýknuð í Rauðagerðismálinu, segja niðurstöðuna í samræmi við væntingar.

Angjelin Mark Sterkaj var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Angjelin játaði verknaðinn nokkru eftir morðið og hefur ávallt haldið því fram að hann hafi verið einn að verki. Armando var albanskur að uppruna, 33 ára gamall. Hann var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauða­gerði þann 13. febrúar síðast­liðinn.

Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, sambýliskona Angjelin, Murat Selivrda og Sheptim Qerimi voru öll sýknuð af ákæru um samverknað.

Verjandi Murat Selivrda sagði í samtali við Fréttablaðið í morgun að skjólstæðingur hans muni krefja ríkið um bætur og verjendur Claudiu og Shpetim segja það einnig til skoðunar.

Claudia þegar hún mætti í héraðsdóm í morgun.
Fréttablaðið/Anton Brink

Leó Daðason, verjandi Shpetim, segir niðurstöðuna í samræmi við væntingar. Hann hafi heyrt í skjólstæðingi sínum um niðurstöðuna.

„Þungu fargi af honum létt vægast sagt. Við tökum næstu daga í að jafna okkur eftir átökin,“ segir Leó en Shpetim var ekki viðstaddur þegar dómur var kveðinn upp. Aðspurður um framhaldið segir Leó að það muni koma í ljós hvort ákæruvaldið muni áfrýja sýknu.

Sverrir Halldórsson, verjandi Claudiu, segist ánægður með dóminn.

„Dómurinn er í samræmi við það sem búist var við,“ sagði Sverrir. Aðspurður hvort hann hafi rætt um bótakröfur við skjólstæðing sinn segir hann það sannarlega til skoðunar þó hann hafi ekki rætt það sérstaklega.

Shpetim og Cladia voru sýknuð ásamt Murat.
Fréttablaðið/samsett mynd