Umferðin í morgun hefur gengið ágætlega fyrir sig að sögn Guðbrands Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns umferðadeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Guðbrandur segir ekki mikla umferð og greinilegt sé að margir hafi haldið sig heima eða seinkað för sinni.

„Það er mjög þungt og illfært í efri byggðum eða í hverfum sums staðar eða bílastæðum sem ekki hafa verið rutt. Veghaldari byrjar náttúrulega á því að reyna opna og ryðja stofnbrautakerfið og strætisvagnaleiðir og síðan þegar það er orðið í ásættanlegu ástandi þá fara þeir inn í íbúðahverfi,“ segir Guðbrandur.

Að sögn Guðbrands er fólk hvatt til kynna sér aðstæður á vegum áður en það leggur af stað út í daginn og eins fyrir heimför. Hann segir hvassviðri spáð og að möguleiki sé á skafrenningi, þá geti dregið í skafla þannig að færðin geti spillst aftur þegar líður á daginn.

Guðbrandur biðlar til fólks að fara alls ekki af stað á vanbúnum ökutækjum og hreinsa allan snjó áður en lagt er af stað. „Það er allt of algengt að það er rétt hreinsuð framrúða og það sést varla í ökuljós vegna þess að það er snjór yfir ökuljósum og afturljósum.“

Guðbrandur segir tvö umferðaróhöpp skráð hjá lögreglu enn sem komið er, annars vegar bílvelta í undirgöngum við Breiðhöfða í Reykjavík og hins vegar á Reykjanesbraut við Álverið.

Þar hafi bifreið ekið útaf og á ljósastaur á leið suður. Engin slys urðu á fólki.