Sóttvarnalæknir vill grípa til harða aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.

Þungt hljóð var í Þórólfi Guðnasyni í morgun sem segir að hápunkti bylgjunnar sé svo sannarlega ekki náð þrátt fyrir metfjölda smita í dag, en alls 200 manns greindust með Covid-19 síðastliðinn sólarhring.

„Við erum ekki í hápunktinum núna. Við sjáum 20 til 30 manns bætast við á hverjum degi. Við náum ekki hápunkti fyrr en við grípum til aðgerða,“ sagði Þórólfur í samtali við Fréttablaðið.

„Að mínu mati þurfum við að grípa til aðgerða til að stemma stigu við þessu. Því harðari aðgerðir sem við grípum til því betri árangur náum við fyrr en ella. Þetta er spurning hvort við viljum grípa til harðra aðgerða í styttri tíma eða mildari aðgerða til lengra tíma.“

Aðspurður um tillögur til ráðherra segir Þórólfur að þær verði að koma í ljós. Þá má búast við tilkynningu frá Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra fyrir helgi en ríkisstjórnin kemur saman á fundi á morgun, meðal annars til að ræða tillögur sóttvarnalæknis.

Fréttablaðið spurði Þórólf hvort hann hefði eitthvað jákvætt að segja um núverandi ástand og svaraði hann:

„Nei, ég hef ekkert jákvætt að segja um þetta ástand.“

Eftir nokkra stund bætti Þórólfur við: „Eina sem mér dettur í hug er að hin útbreidda bólusetning sem við höfum náð er að koma í veg fyrir verra ástand. Ég hvet alla þá sem hafa ekki fengið bóluefni að mæta í bólusetningu fyrir sjálfa sig og samfélagið og ég hvet alla aðra til að mæta í örvunarbólusetningu.“