Ég einfaldlega fullyrði að það verður þungt hljóð í atvinnulífinu ef það á að fara að herða enn frekar,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um líklegar breytingar á sóttvarnaaðgerðum.

Ríkisstjórnin ræðir í dag nýja tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um aðgerðir til að hefta útbreiðslu kórónaveitusmita. Meðferðis á fundinn hefur Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra nýtt minnisblað frá Þórólfi, aðeins þremur dögum eftir að ríkisstjórnin samþykkti óbreyttar aðgerðir til mánaðamóta. Kom þá fram að reglur yrðu hertar enn frekar ef þróun faraldursins yrði ekki snúið.

Aðspurður hvort Landspítalinn hafi óskað eftir því að gripið verði til hertra aðgerða segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar, að það sé ekki spítalans að ákveða.

„Spítalinn sem slíkur hefur enga skoðun á því hvort það verði hertar aðgerðir eða ekki þó að sumir starfsmenn hafi sagt sitt sjónarmið. Við höfum bent á það hvernig verkefnastaðan okkar er þessa dagana. Við erum í miklum önnum við að sinna bæði Covid-sjúklingum og brýnustu verkefnum. Þegar spurt er út í okkar sjónarmið bendum við á þetta orsakasamhengi á milli hlutanna. Eitt sjónarmið er að skella öllu í lás, en það er ekki eina sjónarmiðið,“ segir Már.

„Það verða ákveðnar hliðranir á öðrum verkefnum vegna þessa verkefnis. Það eru hlutir sem er verið að ýta á undan sér og fresta til þess að sinna brýnustu verkefnum og Covid. Eins og kom fram frá spítalanum eru aðeins 45 prósent af skurðstofurýmum í notkun vegna þess að starfsfólk er að sinna Covid-sjúklingum, sem er ein af birtingarmyndum stöðunnar sem við vinnum við.“

Þótt hvorki sóttvarnalæknir né heilbrigðisráðherra hafi gefið upp í gær hvað felst í nýja minnisblaðinu má fastlega reikna með að sóttvarnareglur verði hertar. Það gæti meðal annars falið í sér þrengri samkomutakmarkanir en tuttugu manna og að ýmsum fyrirtækjum, til dæmis líkamsræktarstöðvum og hárgreiðslustofum, yrði gert að loka tímabundið.

Halldór Benjamín segir þegar vera þungt hljóðið hjá fyrirtækjum landsins vegna sóttvarnaaðgerða. „Stjórnvöld verða að styðja betur við atvinnulífið og útvíkka lokunarstyrki og önnur fjárhagsleg úrræði. Við megum engan tíma missa og eðlileg krafa að stuðningsúrræði fyrir atvinnulífið séu kynnt samhliða ef til stendur að herða sóttvarnareglur enn frekar,“ segir hann.

Það hafi legið fyrir milli jóla og nýárs að starfsemi margra fyrirtækja var við það lamast.

„Brugðist var við því með því að breyta reglum um sóttkví þannig að einstaklingar sem eru þríbólusettir gátu farið í smitgát í stað þess að fara í sóttkví. Það auðvitað léttir róðurinn umtalsvert en það breytir því ekki að allt samfélagið, og atvinnulífið þar með talið, er undirlagt um þessar mundir,“ segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.