Tilraunir með þunglyndislyfið fluvoxamine sem meðferð við Covid-19 hafa gefið afar góða von og gæti það reynst nýjasta vopnið í baráttunni við faraldurinn.

Sam­kvæmt nýrri rann­sókn, sem gerð var í Brasilíu, má draga mjög úr líkum á sjúkra­hús­inn­lögnum og dauðs­föllum með því að taka lyfið skömmu eftir að ein­kenni koma fram. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í breska læknaritinu Lancet.

Kom auga á mögu­leikann er hún var veik af Co­vid

Fluvoxamine er oft notað til að meðhöndla áráttu- og þráhyggjuröskun með því að auka magn efnisins serótóníns í heilanum. Það virðist gagnast til draga úr bólgum af völdum Covid segir barnasálfræðingurinn Angela Reiersen hjá Washingtonháskóla í St. Louis í Bandaríkjunum.

Hún kom auga á möguleikann á að nota lyfið gegn Covid er hún lá yfir vísindagreinum er hún var sjálf veik af Covid og fór fyrir rannsókninni.

„Þetta er lyf sem hefur verið notað í tvo til þrjá áratugi - sem milljónir hafa tekið. Það er fáanlegt í öllum apótekum Bandaríkjanna og tíu daga meðferð kostar tíu dollara“, segir David Boulware, smitsjúkdómalæknir og rannsakandi við háskólann í Minnesota. Til samanburðar kostar fimm daga meðferð með molnupiravir, nýju lyfi lyfjafyrirtækisins Merck gegn Covid, 700 hundruð dollara.

Rannsóknin er hluti af TOGETHER, alþjóðlegu samstarfsverkefni vísindafólks víða um heim sem hófst á síðasta ári. Það hefur að markmiði að gera tilraunir með lyf sem þegar eru til og kanna hvort þau komi að gagni gegn Covid-19. Slíkar tilraunir hafa verið gerðar með malaríulyfið hydroxychloroquine og ivermectin, sem notað er gegn sníkjudýrum, og komið í ljós að gagnsemi þeirra er ekki mikil. Annað virðist uppi á teningnum með Fluvoxamine.

Í rannsókninni tóku þátt 1.497 einstaklingar á ellefu stöðum í Brasilíu og stóð hún frá janúar fram í ágúst. Þeir voru allir óbólusettir, með undirliggjandi sjúkdóma og með flensueinkenni innan við viku frá Covid-smiti. Helmingurinn fékk 100 milligrömm af fluvoxamine eða lyfleysu tvisvar á dag í tíu daga. Fylgst var með fólkinu í fjórar vikur eftir að meðferð lauk.

Meira en 600 þúsund manns hafa látist af völdum Co­vid í Brasilíu. Víða hefur þurft að grafa fólk í fjölda­gröfum.
Fréttablaðið/EPA

Af þeim sem fengu lyfleysu þurftu 119 af 756 að leggjast inn á sjúkrahús eða voru á gjörgæslu í meira en sex tíma, alls 15.7 prósent. Aðeins 79 af þeim 741 sem fengu fluvoxamine urðu svo veikir, alls 10,7 prósent. Inntaka fluvoxamine dró úr sjúkrahúsheimsóknum eða innlögnum um 32 prósent samkvæmt rannsókninni.

Á­kvörðun tekin um notkun lyfsins innan skamms

Hjá þeim sem tóku í það minnsta 80 prósent af skömmtum sínum af fluvoxamine var gagnsemi lyfsins enn meiri. Þetta voru um þrír fjórðu þátttakanda en stærstur hluti þeirra sem hætti að taka lyfið gerði það vegna aukaverkana, einkum í meltingarvegi.

Af þeim sem tóku minnst 80 prósent skammta minnkuðu líkur á alvarlegum afleiðingum Covid-smits um 66 prósent og lækkaði dánartíðni um 91 prósent. Af þeim sem fengu lyfleysu létust tólf en aðeins einn sem fékk fluvoxamine.

„Við höldum að nota ætti það fyrir Covid-sjúklinga sem eru í mikilli hættu vegna undirliggjandi sjúkdóma og miklar líkur eru á að látist af völdum sýkingar,“ segir Reiersen. Að sögn Boulware fengu bandarísk yfirvöld rannsóknargögnin í sínar hendur um miðjan september og býst hann við ákvörðun um hvort fluvoxamine verði notað til að meðhöndla Covid-smitaða liggi fyrir innan skamms.

Fluvoxamine er oft notað til að meðhöndla áráttu- og þráhyggjuröskun.
Mynd/Teva