Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur segir að það sé ekki von á sólríkum kosningadegi og það eigi líklegast eftir að rigna á Suðurlandi á morgun. „Sólin hefur oft verið ákafari að komast að á kjördegi og virðist sem að það verði þungbúið víða um land. Ég á ekki von á að það verði sólríkt en búast má við skárra veðri á Norðurlandinu, jafnvel að hann haldist alveg þurr.“

Íslendingar ganga til kosninga um allt land á morgun en landsmenn hafa fengið að kynnast bæði sól og léttri snjókomu það sem af er vikunni.

„Ég er hræddur um að það eigi eftir að vera rigning á Suðurlandi en það fer ekki í slyddu. Mér sýnist að hitastigið nái ekki tveggja stafa tölu neins staðar á landinu en það fer hækkandi með hverjum degi þessa dagana,“ segir Sigurður.