Starfsemi að Brákarbraut 25 og 27 í Borgarnesi verður hætt eftir að Eldvarnareftirlit og byggingafulltrúi kröfðust þess að starfsemi þar yrði stöðvuð vegna annmarka á húsnæðinu sem er í eigu Borgarbyggðar. Rafmagnsöryggi, brunahólfum og loftræstingu er ábótavant samkvæmt úttekt á því. Þetta kom fram á fundi Byggðarráðs Borgarbyggðar 18. febrúar.
„Leigjendur húsnæðisins hafa verið upplýstir og þeim sagt að fara að kröfu byggingarfulltrúa og eldvarnareftirlits og hætta starfsemi í húsnæðinu,“ segir í bókun Byggðarráðs. Það hefur jafnframt falið Þórdís Sif Sigurðardóttur sveitarstjóra að afla tilboðs í úttekt á húsnæðinu til að meta kostnað við nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja öryggi hússins svo hægt verði að nýta það áfram.

Leigjendur húsnæðisins eru Skotfélag Vesturlands, Golfklúbbur Borgarness, Bifhjólafélag Borgarfjarðar Rafta, Fornbílafjelag Borgarfjarðar, Ikan frumkvöðlasetur, Safnahús Borgarbyggðar, Leikdeild körfuknattleiksdeildar Skallagríms og Bílapartar Guðmundar Ólafssonar. Auk þess er þar aðstaða Áhaldahúss Borgarbyggðar. Þar var áður starfrækt frystihús, sláturhús og fóðurgeymsla. Slökkvilið Borgarbyggðar kannaði einnig aðstæður í gamla frystihúsinu og vélageymslur ásamt öðrum rýmum og hólfum hússins.

Tjáir sig ekki um meintan skort á viðhaldi
„Ég get ekki tjáð mig um þetta, ég ætla heldur ekki að tjá mig um það hvort sinnt hafi verið nægu viðhaldi eða ekki. Staðan á húsnæðinu er sú, aðilum var veitt að nota það tímabundið en ekki vitað hvað yrði um húsnæðið síðar. Það hefur verið rætt um hvað skildi gera við húsnæðið í mörg ár,“ segir Þórdís aðspurð um fullyrðingar Þórðar Sigurðssonar hjá Skotfélagi Vesturlands, eins leigjenda í húsnæðinu, um að sveitarfélagið hafi ekki sinnt viðhaldi. Þórdís tók við starfi sveitarstjóri Borgarbyggðar fyrir rúmu ári.
Hún viðurkennir að leigutökum sé veittur stuttur tími með ákvörðun Eldvarnareftirlitsins og byggingafulltrúa. Sveitarfélaginu sé hins vegar skylt að framfylgja henni en niðurstöður úttektarinnar hafi verið kynntar á óformlegum fundi fulltrúa Byggðarráðs 10. febrúar. Daginn eftir var haldinn fundur með leigjendum.

Ekki óskaniðurstaða
„Þetta er þungbær ákvörðun fyrir alla og mikilvæg starfsemi fyrir samfélagið í Borgarnesi. Ekki niðurstaða sem við höfðum óskað okkur. Ástand húsnæðisins er bara slíkt að það var ekki hægt að gefa okkur rýmri frest til að gera úrbætur eða loka því,“ segir Þórdís. Vilji hafi staðið til að skoða húsnæðið eftir rýmum og ástandi hvers og eins en nauðsynlegt sé að skoða það heildrænt.
Leitað hafi verið allra leiða til að heimila starfsemi í ákveðnum hlutum húsnæðisins en Eldvarnareftirlitið og byggingafulltrúi ekki fallist á það. Þórdís segir ómögulegt fyrir slökkvilið að fara inn í húsnæðið komi þar upp eldur vegna skorts á loftræstingu. Þegar kostnaður við endurbætur þess liggi fyrir verði fundað með leigjendum.
Segir engum fjármunum hafa verið varið í viðhald
„Húsnæðið er gríðarlega stórt, það er ekkert allt í lamasessi þar þó að stór hluti þess sé það, “ segir Þórður Sigurðsson hjá Skotfélag Vesturlands. Félagið, Golfklúbburinn og Fornbílafélag hafa bætt húsnæðið mikið og lagt mikla fjármuni í það. „Við höfum hagað okkar uppbyggingu eftir athugasemdum Eldvarnareftirlitsins. Það er mjög bagalegt að þetta sé gert,“ segir Þórður.
Þetta eru harkalegar aðgerðir
„Þetta eru harkalegar aðgerðir, það þarf að bregðast við þessu en vandamálið er að það hefur aldrei verið settur neinn peningur í viðhald á húsinu. Eins og um margt annað hjá sveitarfélaginu er aldrei tekin ákvörðunum um neitt og staðan er sú núna að húsnæðið er hættulegt. Þetta kippir fótunum undan okkar starfsemi, við erum íþróttafélag og það myndi heyrast eitthvað sungið ef kippt yrði fótunum undan aðstöðu annarra íþróttafélaga með þessum hætti,“ segir Þórður.
Hann segir hætt við að á tímum COVID-19 við að jaðarhópar einangrist og okkar félagsmenn einangrist heima ef þeir hafi ekki aðstöðu til að sinna íþrótt sinni. „Þetta er alveg glórulaust“ bætir hann við. Skotfélagið hefur leigt þarna síðan 2012 en fljótlega kom í ljós þakleki á húsnæðinu. Skotfélagið, ásamt Golfklúbbnum, hafi boðist til að laga sveitarfélagsins að sögn Þórðar. „Það var sagt þvert nei við því.“

Erfiður tími til að loka húsnæðinu
„Ég skil byggingafulltrúa og slökkvilið, það þarf að koma ákveðnum atriðum í lag,“ Ingvi Jens Árnason hjá Golfklúbbi Borgarness. Klúbburinn vilji hins vegar að húsnæðinu verði ekki öllu lokað þar sem ákveðnir hlutar þess, til að mynda aðstaða klúbbsins, er í betra ástandi en aðrir og klúbburinn lagt til við Byggðarráð hugmyndir um endurbætur. „Við erum að biðja um hvort ekki sé ekki hægt að einangra það og koma þeim hlutum í betra horf,“ segir Ingvi.
Engu að síður komi það Golfklúbbnum illa að húsnæðinu sé lokað núna. Nú sé sá tími þar sem húsnæðið er notað mest, meðal annars af öldruðum og ungmennum auk meðlima klúbbsins. Þess vegna hafi hann reynt að fá leyfi fyrir að halda húsnæðinu opnu sem ekki gekk eftir.