Barnshafandi konu, hælisleitanda sem komin er átta mánuði á leið og hafði fengið boð um brottvísun frá Íslandi, hefur verið bjargað að sinni frá brottvísun.

Fréttablaðið hefur fengið staðfest að konan er komin með vottorð frá lækni og búið er að senda gögn um hana til Útlendingastofnunar og lögreglu. Konan vill ekki koma fram opinberlega eða í viðtali. Vænta má þess að nánustu fjölskyldumeðlimir hennar fái einnig skjól hér á landi, að minnsta kosti tímabundið.

„Já, það hefur tekist að hindra fyrirhugaða brottvísun umbjóðanda okkar sem gengin var átta mánuði á leið. Vottorð fékkst frá lækni þess efnis að ekki væri forsvaranlegt að senda viðkomandi úr landi að teknu tilliti til ástands hennar,“ segir Magnús Norðdahl lögmaður.

Vaxandi þrýstingur er á Alþingi að íslensk stjórnvöld hverfi frá þeirri stefnu að vísa burt allt að 300 manns á næstu vikum með lögregluvaldi í kjölfar aukins ferðafrelsis eftir Covid.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup fordæmdi í Fréttablaðinu í gær bylgju brottvísana fram undan.

Davíð Þór Jónsson prestur bætti um betur í gær þegar hann sagði að „fasistastjórn VG“ hefði ákveðið að „míga á Barnasáttmála SÞ“, með því að „senda fjölda barna úr langþráðu öryggi og skjóli hér á Íslandi, þvert á það sem þeim er fyrir bestu, til að hafast við í fullkomnu reiðuleysi á götum úti á Grikklandi.“

Magnús Norðdahl lögmaður segir alveg ljóst að stjórnvöld séu ekki bundin af lögum heldur sé um að ræða pólitískt val.

„Efnismeðferð er meginreglan samkvæmt núgildandi lögum,“ segir Magnús.