Íbúar í háskólaíbúðum við Eggertsgötu standa í deilum við Félagsstofnun stúdenta, en stöðugar framkvæmdir á svæðinu hafa skert lífsgæði íbúa til muna. Vatn og internet liggur oft á tíðum niðri og svæðið þar sem börn gátu áður leikið sér er umkringt stórum vélum sem vinna allan liðlangan daginn.
Steinunn Þórðardóttir og Harpa Jóhannsdóttir búa með fjölskyldum sínum á svæðinu og vilja báðar meina að samskiptin við FS megi vera betri, en Steinunn segir að það sé komið fram við fólk á svæðinu eins og íbúa í skólavist, en ekki fullorðið fólk með börn.
„Það eru framkvæmdir á eftir framkvæmdum. Það sem stuðar okkur helst er fyrst og fremst samskiptaleysið og viðhorf Félagsstofnunar stúdenta gagnvart íbúum. Þetta eru fjölskylduíbúðir, þó að við séum í námi þá erum við fullorðið fólk með börn. Samskiptin eru á þá leið eins og við séum óþekkir unglingar á heimavist,“ segir Steinunn.
„Það eru framkvæmdir báðu megin við húsið þar sem ég bý. Nýlega hófust framkvæmdir í garðinum þar sem börnin leika sér og við fengum dagsfyrirvara á að helmingurinn af bílastæðunum yrði tekinn í það. Þessar framkvæmdir eru ekkert grín,“ segir Steinunn.
„Maður skilur alveg að það þurfi á framkvæmdum að halda, en það vantar smá gagnsæi í að ræða við fólkið sem býr þarna. Það hefði mátt vera fundur eða eitthvað slíkt. Einnig gætu verktakarnir aðlagað sig að því að fólk býr á svæðinu. Við búum bara á risastóru framkvæmdarsvæði,“ segir Steinunn.
Við viljum ekki flytja
Harpa Jóhannsdóttir, námsmaður býr á Eggertsgötunni með kærastanum sínum og þremur börnum. Hún segir að Félagsstofnun stúdenta hafi tilkynnt þeim síðastliðinn júlí að það ætti að gera upp húsnæðið og að þeim stæði til boða að flytja í nýjar íbúðir við Vetragarð, á milli nóvember og nýárs.
„Tíminn líður og maður fer að spyrja út í þetta, þá fáum við svarið að íbúðirnar verða ekki tilbúnar fyrr en í byrjun í desember. Við viljum fá nákvæma dagsetningu til að ráðstafa flutningunum, því við erum í prófum á þessum tíma. Við fáum svarið að það er ekki vitað hvenær íbúðirnar verði tilbúnar, því það er enn þá verið að vinna í þeim,“ segir Harpa.
„Svo fáum við fáum þær upplýsingar að nýja íbúðin myndi ekki vera tilbúin fyrr en 15. desember. Þannig að við í rauninni erum bara að bíða eftir að geta flutt, en viljum samt ekki flytja. Þetta er allt of stuttur fyrirvari, fólk í prófum og stutt í jól,“ segir Harpa, en FS tilkynnti þeim að það stæði til að rifta leigusamningnum við fjölskylduna og gera nýjan með styttri leigutíma.

„Ég sagði að ég væri ekki ánægð með þetta, ég er að útskrifast núna í vor og væri þá aftur að flytja eftir það. Ég vildi allavegana fá eitthvað í staðinn fyrir allt vesenið. Þá fáum þau svör að það þurfi að gera upp húsið og ef að við flytjum ekki á þyrftum við að búa á framkvæmdarsvæði,“ segir Harpa.
Harpa segir að hún hafi sett sig í samband við skrifstofu FS, en forsvarsmenn þeirra gefi þeim fá svör. Einnig hefur hún reynt að ná á forstjóra FS og rektor Háskóla Íslands, en henni hefur engin svör borist.
„Eina svarið sem við fengum frá FS var er að við þurfum að ráða lögfræðing svo að þeirra lögfræðingur geti skoðað þetta. Það er kannski ekki hentugt fyrir fólk sem er í háskóla að standa í,“ segir Harpa.
„Það er eiginlega verið að segja að þú verður að flytja eða þú munt ærast úr hávaða. Það eru námsmenn sem búa þarna og þetta er ekki boðlegt,“ segir Harpa.
