Í­búar í há­skóla­í­búðum við Eggerts­götu standa í deilum við Fé­lags­stofnun stúdenta, en stöðugar fram­kvæmdir á svæðinu hafa skert lífs­gæði íbúa til muna. Vatn og inter­net liggur oft á tíðum niðri og svæðið þar sem börn gátu áður leikið sér er um­kringt stórum vélum sem vinna allan lið­langan daginn.

Steinunn Þórðar­dóttir og Harpa Jóhanns­dóttir búa með fjöl­skyldum sínum á svæðinu og vilja báðar meina að sam­skiptin við FS megi vera betri, en Steinunn segir að það sé komið fram við fólk á svæðinu eins og íbúa í skólavist, en ekki fullorðið fólk með börn.

„Það eru fram­kvæmdir á eftir fram­kvæmdum. Það sem stuðar okkur helst er fyrst og fremst sam­skipta­leysið og við­horf Fé­lags­stofnunar stúdenta gagn­vart í­búum. Þetta eru fjöl­skyldu­í­búðir, þó að við séum í námi þá erum við full­orðið fólk með börn. Sam­skiptin eru á þá leið eins og við séum ó­þekkir ung­lingar á heima­vist,“ segir Steinunn.

„Það eru fram­kvæmdir báðu megin við húsið þar sem ég bý. Ný­lega hófust fram­kvæmdir í garðinum þar sem börnin leika sér og við fengum dags­fyrir­vara á að helmingurinn af bíla­stæðunum yrði tekinn í það. Þessar fram­kvæmdir eru ekkert grín,“ segir Steinunn.

„Maður skilur alveg að það þurfi á fram­kvæmdum að halda, en það vantar smá gagn­sæi í að ræða við fólkið sem býr þarna. Það hefði mátt vera fundur eða eitt­hvað slíkt. Einnig gætu verk­takarnir að­lagað sig að því að fólk býr á svæðinu. Við búum bara á risa­stóru fram­kvæmdar­svæði,“ segir Steinunn.

Við viljum ekki flytja

Harpa Jóhanns­dóttir, náms­maður býr á Eggerts­götunni með kærastanum sínum og þremur börnum. Hún segir að Fé­lags­stofnun stúdenta hafi til­kynnt þeim síðast­liðinn júlí að það ætti að gera upp hús­næðið og að þeim stæði til boða að flytja í nýjar í­búðir við Vetra­garð, á milli nóvember og ný­árs.

„Tíminn líður og maður fer að spyrja út í þetta, þá fáum við svarið að í­búðirnar verða ekki til­búnar fyrr en í byrjun í desember. Við viljum fá ná­kvæma dag­setningu til að ráð­stafa flutningunum, því við erum í prófum á þessum tíma. Við fáum svarið að það er ekki vitað hve­nær í­búðirnar verði til­búnar, því það er enn þá verið að vinna í þeim,“ segir Harpa.

„Svo fáum við fáum þær upp­lýsingar að nýja í­búðin myndi ekki vera til­búin fyrr en 15. desember. Þannig að við í rauninni erum bara að bíða eftir að geta flutt, en viljum samt ekki flytja. Þetta er allt of stuttur fyrir­vari, fólk í prófum og stutt í jól,“ segir Harpa, en FS til­kynnti þeim að það stæði til að rifta leigu­samningnum við fjöl­skylduna og gera nýjan með styttri leigu­tíma.

Grafa í garðinum sést úr glugga Hörpu Jóhanns­dóttur.
Mynd/aðsend

„Ég sagði að ég væri ekki á­nægð með þetta, ég er að út­skrifast núna í vor og væri þá aftur að flytja eftir það. Ég vildi alla­vegana fá eitt­hvað í staðinn fyrir allt vesenið. Þá fáum þau svör að það þurfi að gera upp húsið og ef að við flytjum ekki á þyrftum við að búa á fram­kvæmdar­svæði,“ segir Harpa.

Harpa segir að hún hafi sett sig í sam­band við skrif­stofu FS, en for­svars­menn þeirra gefi þeim fá svör. Einnig hefur hún reynt að ná á for­stjóra FS og rektor Há­skóla Ís­lands, en henni hefur engin svör borist.

„Eina svarið sem við fengum frá FS var er að við þurfum að ráða lög­fræðing svo að þeirra lög­fræðingur geti skoðað þetta. Það er kannski ekki hentugt fyrir fólk sem er í há­skóla að standa í,“ segir Harpa.

„Það er eigin­lega verið að segja að þú verður að flytja eða þú munt ærast úr há­vaða. Það eru náms­menn sem búa þarna og þetta er ekki boð­legt,“ segir Harpa.

Útsýnið úr íbúð Hörpu í Eggertsgötu.
Mynd/aðsend