Við Arnar mæltum okkur mót árla dags, áður en hann mætti í Borgarholtsskóla þar sem hann leggur stund á bifvélavirkjun meðfram stúdentsprófi.

„Það er fullt af góðum hlutum að gerast hjá mér í dag þrátt fyrir það sem ég hef gengið í gegnum,“ segir hann einlægur.

Arnar var aðeins 14 ára þegar móðir hans lést eftir baráttu við brjóstakrabbamein, ári síðar greindist faðir hans með krabbamein í brisi og lést rúmu ári eftir það. Arnar stóð því uppi foreldralaus tæplega 16 ára gamall og flutti ásamt yngri systur til föðursystur þeirra og fjölskyldu hennar.

„Ég kynntist Erninum árið 2018 og fór í fyrstu ferðina með þeim í Vindáshlíð,“ segir Arnar, en Örninn stendur árlega fyrir slíkum ferðum til að styðja börn í sorg og tengja þau sín á milli.

„Ég ákvað strax að ég skyldi opna á samtal við strákana og fann undir eins tengingu, enda við allir með sömu sorg,“ rifjar hann upp og segir tvo þeirra mjög nána vini sína í dag.

„Ég ákvað strax að ég skyldi opna á samtal við strákana og fann undir eins tengingu, enda við allir með sömu sorg.“

Arnar segist í dag eiga auðvelt með að ræða foreldramissinn en á þessum tíma hafi það oft reynst erfitt, enda hafi hann verið feiminn.

„Í dag finnst mér gott að fólk viti.“

Sorgin oft mishöndluð


Arnar var 17 ára og næstelstur þegar hann fór í þessa fyrstu ferð, hann vildi þó halda áfram og var boðið að gerast sjálfboðaliði sem hann þáði og nýtur þess í dag.


„Ég hef lagt mig fram við að kynna mér sorgina sem mér finnst oft mishöndluð hjá sálfræðingum og geðlæknum. Eftir að pabbi dó sökk ég mjög djúpt. Frænka mín fór þá með mig til geðlæknis sem greindi mig með þunglyndi og ávísaði þunglyndislyfjum. Ég er alls ekki þunglyndur heldur mjög lífsglaður ungur maður. Þetta var bara sorgin,“ segir Arnar, og bætir við að lyfin hafi einfaldlega aukið á vanlíðanina og hann hafi fljótlega hætt á þeim.

„Ég er alls ekki þunglyndur heldur mjög lífsglaður ungur maður. Þetta var bara sorgin."

„Það eru allar tilfinningar í flórunni sorg og þær eiga allar rétt á sér. Þær geta komið allar á sama tíma eða öðru hvoru. Þetta er svo mikið áfall, ég get enn ekki útskýrt kvöldið sem mamma dó,“ segir Arnar um leið og tárin spretta fram.

„Við vorum í nýárspartíi hjá frænku minni þegar pabbi, sem hafði verið uppi á spítala hjá mömmu, kom og sagði okkur að hún væri látin. Áfallið var svo mikið að ég á enn erfitt með að tala um það,“ segir hann og þurrkar tárin.


Gat ekki hætt að gráta


Móðir Arnars, Sif, lést á nýársdag árið 2015. Hún hafði greinst með brjóstakrabbamein árið 2007 og sigrast á því. Fyrir jólin 2012 tók það sig þó aftur upp og hafði þá dreift sér þannig að ekkert var hægt að gera.

Arnar rifjar upp síðustu jólin með móður sinni.

„Hún var rúmliggjandi og kom ekki fram allan nóvember og desember nema rétt aðeins á jóladag. Hún neitaði að leggjast inn á spítala og var heima eins lengi og hún gat.“

Fyrstu tvær vikurnar eftir móðurmissinn segir Arnar hafa verið nánast óbærilegar.

„Ég gat ekki hætt að gráta og hafði enga stjórn á tilfinningum mínum.“

Þú ert ekki að fara líka


Faðir Arnars, Guðmundur, greindist ári síðar með krabbamein í brisi og voru ekki gefnar miklar lífslíkur. Arnar man vel eftir augnablikinu þegar læknirinn færði honum fréttirnar.

„Ég sagði strax: „Þú ert ekki að fara líka!“ Ég ætlaði ekki að sætta mig við það að missa pabba líka. En ég var duglegur að kynna mér sjúkdóminn og því meira sem ég vissi, því betur áttaði ég mig á því hversu alvarleg staðan væri.“

„Ég sagði strax: „Þú ert ekki að fara líka!“ Ég ætlaði ekki að sætta mig við það að missa pabba líka."

Baráttan stóð því miður stutt og Arnar var einungis 16 ára þegar faðir hans féll frá og þau systkinin stóðu uppi foreldralaus. Þau fluttu til föður­systur sinnar og fjölskyldu í Kópavoginum, en áður höfðu þau búið með foreldrum sínum í Árbænum.

„Ég gat þó ekki tekið með mér köttinn sem ég hafði fengið þegar mamma lést og það var enn eitt áfallið,“ segir hann einlægur.


Þurfti að kveðja gamla lífið sitt


„Ég bjóst aldrei við að ég myndi líka missa pabba, en hann hafði verið haldreipið mitt. Ég þurfti á sama tíma að kveðja gamla lífið mitt, húsið í Árbænum þar sem ég var með köttinn minn.“

Vinirnir voru líka í Árbænum en Arnar kynntist fáum í Kópavogi. En þó það hafi reynst Arnari erfitt að flytja inn á nýja fjölskyldu er hann þakklátur frænku sinni fyrir að opna heimili sitt fyrir þeim systkinum.

Arnar segir sorgina ekki eins sára núna en hún fari þó ekki neitt og það sé í raun allt í lagi.Fréttablaðið/eyþór

„Það eru ekki margir sem hefðu tekið við tveimur auka börnum með tvö börn fyrir, heimili og vinnu.“

Arnar notaði arfinn í að kaupa sér íbúð og keypti hann sér hana á heimaslóðunum, í Árbænum. Um leið og hann varð 18 ára flutti hann inn ásamt Röggu, kærustunni sem hann kynntist í 10. bekk, og kettinum sem gat ekki flutt með honum á sínum tíma.


Kærastan mikill stuðningur


„Það hefur haldið mér gangandi að hafa svona sterkan aðila eins og Röggu við hlið mér. Hún er ómetanlegur stuðningur og mamma hennar líka. Ég lít í raun á tengdó sem auka móður.“

„Það hefur haldið mér gangandi að hafa svona sterkan aðila eins og Röggu við hlið mér."

Arnar segir einn fylgifisk svo mikils missis og sorgarinnar sem fylgir, vera að hann eigi það til að grípa fast í fólkið í kringum sig.

„Vinir mínir eru mér allt,“ segir hann og lýsir því hvernig kveðjustundir hafi lengi vel valdið honum kvíða.

„Ég óttaðist alltaf að mögulega væri ég að kveðja í síðasta skipti.“

Arnar var eins og fyrr segir aðeins 14 ára gamall þegar hann missti móður sína og segir þessa miklu sorg og viðbrögð jafnaldra sinna hafa gert það að verkum að hann einangraðist.

„Ég held að allir hafi haldið að ég vildi vera látinn vera – en ég tók því þannig að enginn vildi tala við mig. Einn og einn spurði hvernig ég hefði það.

En mér leið fyrst eins og ég væri mjög spes með þessa upplifun.“ Börn og unglingar vita mörg eðlilega ekki hvernig á að bregðast við svona aðstæðum. En þegar fór að líða á skólagönguna varð Arnar alltaf meiri og meiri hluti af hópnum.

„Ég held að allir hafi haldið að ég vildi vera látinn vera – en ég tók því þannig að enginn vildi tala við mig."

Í kjölfar missisins gekk Arnar til sálfræðinga og segir einn þeirra hafa náð til sín.

„Hún heitir Kristín og starfaði hjá Ljósinu. Hún er frábær og hjálpaði mér óendanlega mikið og Ljósið líka.“


Rosalega gott að gráta


Það er augljóst að það tekur á Arnar að rifja upp reynslu sína við ókunnugan blaðamann og lái honum hver sem vill. Hann segir skýringuna þó liggja í því að hann hafi ekki fundið þörf fyrir að ræða missinn í svolítinn tíma og því taki það meira á núna.


„Mér finnst ég þó ekki vera minni maður fyrir að tala um að vera leiður. Mér finnst ég vera að vinna úr þessu á jákvæðan hátt og að sorgin sé ekki lengur þessi sára stunga í bakið. Þú lærir að lifa með sorginni, rétt eins og ef þú missir putta lærirðu að lifa með því.

En hún fer ekkert og ég held ég muni alltaf upplifa þessar tilfinningar sem mér finnst í rauninni bara vera allt í lagi. Mér finnst rosalega gott að gráta, mér líður alltaf betur eftir á. Að leyfa tilfinningunum að koma og reyna að skilja þær.“

„Mér finnst ég vera að vinna úr þessu á jákvæðan hátt og að sorgin sé ekki lengur þessi sára stunga í bakið."

Arnar segist hafa upplifað allar mögulegar tilfinningar tengdar sorginni en sveiflurnar séu erfiðastar, rússíbaninn sem fer af stað án nokkurrar viðvörunar.

„Ég er mjög sáttur við að hafa ekki leiðst út í hörð eiturlyf. Ég veit ekki hvernig þessi rússíbani hefði þá litið út en líklega hefði það endað mjög illa.

Hann viðurkennir þó að hafa byrjað að stelast í áfengi en það hafi verið skammgóður vermir gegn vanlíðaninni innra.

„Ég var að reyna að ná líðaninni aðeins upp sem dugði í smástund, en svo vaknaði vanlíðan sem hreinlega leiddi út í sjálfshatur.“


En ætli hann hafi ekki upplifað reiði yfir örlögum sínum?

„Reiði? Jú, guð minn góður,“ svarar hann hlæjandi.

„Nú í dag er það eðlileg reiði út í samfélagið sem mér finnst oft ósanngjarnt. En það er ákveðinn pakki að verða allt í einu einn á báti með greiðslur reikninga og svo framvegis,“ segir Arnar og lýsir því hvernig hann hafi þurft að fullorðnast hratt og því hafi fylgt ákveðinn kvíði.


Elskar lífið í dag

Í dag er líf Arnars komið í ákveðið jafnvægi og hann segist njóta þess.

„Ég elska lífið. Ég veit ekki hvernig ég væri ef ég hefði ekki upplifað þetta allt en að einhverju leyti finnst mér eins og maður nýti tímann sinn betur.“

Hann segist þó hafa lært að óttinn sé til einskis.

„Það sem gerist, gerist. Ég var greindur með ofsakvíða og get enn fengið kvíðaköst og sorgin triggerar þau. En ég næ að stjórna þeim í dag og þau koma sjaldnar.“

„En sorgin er bara úti um allt. Ég hef oft ætlað að fara að gera eitthvað félagslegt en síðan tekur sorgin yfir svo ég treysti mér ekki."

Það er augljóst á spjalli við Arnar að tengingin milli hans og foreldra hans var sterk.

„Þau voru aktíf, fóru mikið með okkur í bústaðarferðir og drógu mig oft út í göngutúra, sund eða í fótbolta þegar veður leyfði. Ég gat rætt allt við þau og treysti þeim fyrir öllu.“

Kirkjugarðurinn þar sem þau hvíla er við hlið skóla Arnars og eru heimsóknir hans að leiðunum tíðar.

„Þegar ég finn fyrir pínu sorg rölti ég þangað og finnst það heilandi.“


Félagsskapurinn veitir styrk


Félagsskapurinn við aðra með svipaða lífsreynslu segir hann veita mikinn styrk.


„Ég væri ekki jafn sterkur í dag ef ekki væri fyrir Örninn,“ segir hann og bætir við að nú sé það draumur hans að koma á öðru eins félagsneti fyrir fólk upp úr tvítugu.

„Krakkarnir koma mikið betur út og ég sé mun á líðan þeirra eftir svona helgarferð með Erninum. Þú getur sagt eiginlega allt í þessum hóp, það er enginn með leiðindi, það er ekki hægt. Það er allt gott.“

„Ef ég heyri að einhver vilji tala er ég alltaf tilbúinn,“ segir hann og lýsir traustinu sem ríkir í samtali hans og vina hans.

„Það eru ekki allir að glíma við slíka sorg en allir eru að glíma við tilfinningar. Ég hef misst báða foreldra en það þýðir ekkert að ég hafi átt erfiðara líf en þú. Gæi sem missir afa sinn getur alveg upplifað sömu sorg. Þú setur sorgina ekkert á skala.“

Arnar horfir björtum augum fram á veginn.

„Ég er í lagi – ég sem er búinn að fara í gegnum tíma þar sem ég bara grét og langaði ekki að lifa. Ég er búinn með sorgarkúrfuna í bili, jafnvel þótt hún mun alltaf fylgja mér.“