Landsréttur þyngdi á föstudag dóm yfir karlmanni vegna brota gegn barnsmóður sinni og barni þeirra. Maðurinn hafði í Héraðsdómi Reykjaness hlotið þriggja mánaða fangelsisdóm, en í Landsrétti var hann þyngdur í átta mánuði.
Maðurinn, sem neitaði sök, var meðal annars sakfelldur fyrir umsáturseinelti, með því að reyna gríðarlega oft að setja sig í samband við hana og senda ógnandi og niðrandi skilaboð. Á tæplega tveggja mánaða tímabili árið 2018 hringdi hann til að mynda 238 sinnum í hana og sendi henni 573 skilaboð.
Þar kallaði hann konuna til dæmis: fucking piece of shit, bitch, fucking animal, dirty fucking slut, og fleiri illum nöfnum. Þá hótaði hann henni að hann myndi vera með „drama“ ef hún myndi ekki fara að vilja hans.
Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa, á rúmum mánuði árið 2021, hringt í hana 57 sinnum og sent henni 50 skilaboð. Þar sakaði hann hana um lygar og bað hana um að segja frá staðsetningu sonar síns.
„„You are a liar [...] stop your fucking lies and hiding the truth [...] you will pay for all this,“ sendi hann til að mynda, en þessi skilaboð mætti útleggja sem: „Þú ert lygari. Hættu að ljúga og segðu sannleikann. Þú munt gjalda fyrir þetta allt saman.“
Þá var maðurinn sakfelldur fyrir að slá nokkrum sinnum í átt að konunni og hrint henni er hún hélt á hágrátandi syni þeirra. Atvikið átti sér stað fyrir fram verslun árið 2019.
Maðurinn var sakfelldur fyrir fleiri brot, en í mörgum þeirra var honum gefið að sök að fylgjast með og elta konuna. Sjálfur vildi maðurinn meina að um tilviljanir væri að ræða.
Líkt og áður segir þyngdi Landsréttur dóminn úr þriggja mánaða fangelsi yfir í átta mánaða fangelsi. Þá hafði héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að maðurinn skyldi greiða konunni 100 þúsund krónur í miskabætur, en í landsrétti hækkuðu þær í 800 þúsund.