Birta Abiba Þórhallsdóttir var 12 ára þegar hún lenti fyrst í líkamlegu ofbeldi vegna húðlitar síns. Hún hafði fram að því þurft að þola fordóma á borð við uppnefni og stríðni. „Ég held að allir sem eru af blönduðum uppruna eins og ég hafi upplifað svona á Íslandi,“ segir Birta í samtali við Fréttablaðið. Hún hefur nýlega upplifað mótlæti vegna þátttöku sinnar í fegurðarsamkeppninni Miss Universe Iceland.

Mismunað vegna húðlitar

„Þú kýlir ekki negra, þú sparkar í hann,“ var öskrað á Birtu áður en samnemandi hennar sparkaði í rifbein hennar. „Þetta var í fyrsta sinn sem einhver meiddi mig vegna þess að ég er brún.“ Hún segir að henni hafi liðið eins og hún væri einskis virði eftir árásina en hún lýsir því að hún hafi verið heppin að eiga góða mömmu í þessum aðstæðum. „Hún lét ekkert svona ganga og fór í hart,“ segir Birta og bætir við að fjölskylda hennar hafi alltaf staðið við bakið á henni.

Það tók samt á Birtu að vera ekki álitin Íslendingur af bekkjarfélögum sínum. Hún byrjaði í kjölfarið að leggja sig fram við að breyta útliti sínu. „Ég slétti og aflitaði á mér hárið og passaði að lýsa myndirnar sem ég tók af mér svo húðlitur minn virtist ljósari.“ Hún fann fyrir miklum þrýsting að líta út fyrir að vera hvít og öðlast þar með samþykki hjá samfélaginu.

Tabú að vera gleðispillir

Birta sagði að samnemendur hennar höfðu ekki gert sér grein fyrir að þegar þeir kölluðu hana Birtu apa, blending, blámann og fleiri niðrandi uppnefni hafði það djúpstæð áhrif á hana. „Ég varð mun einangraðri og byrjaði að óttast það að vekja á mér athygli og vera alltaf að gera mál úr öllu.“ Birta segir það ekki vera gaman að vera stöðugt álitinn gleðispillir.

Hún hefur rætt við mikið af krökkum af blönduðum uppruna sem lýsa því öll að hafa orðið vitni að rasísku gríni og bröndurum sem tengdust uppruna þeirra, hvort sem það var Kína, Indland eða lönd í Afríku. „Ég hló sjálf af rasískum bröndurum til að falla í hópinn en leið bara verr í kjölfarið.“

Fáfræði lifir í þögn

Eftir að Birta komst inn í Miss Universe Iceland hafði ung stelpa samband við hana og spurði hvernig hún ætti að bregðast við rasískum bröndurum. „Ég sagði henni að fáfræðin lifir í þögninni.“ Birta segir heiminn í dag vera að breytast á ljóshraða og að fólk sjái miklu frekar eftir því að þegja en að segja eitthvað.

„Ég skil að það sé erfitt vegna þess að það vill enginn vera manneskjan sem er úthrópuð fyrir að ritskoða aðra.“ Birta talar af reynslu en hún ákvað að taka skrefið og hætta að þegja. „Þegar ég sagði að brandari væri ekki fyndin eða að það væri fáránlegt að skólinn myndi vera með blackface í leikritinu okkar var mér alltaf sagt að róa mig niður.“ Fólk útskýrði stöðugt fyrir Birtu að svona grín skipti engu máli. „Ég komst síðan að því sjálf að það væri rangt og að ef enginn talaði um það þá breyttist ekkert.“

Birta leyfir krullunum sínum núna að njóta sín.

Bakslag eftir Miss Universe Iceland

Kynþáttahatur og fordómar eru að sögn Birtu enn þá vandamál á Íslandi. Hún hefur fyrir löngu lært að elska sjálfa sig eins og hún er en enn þann dag í dag fær hún samt að heyra að hún sé ekki Íslendingur.

Hún fékk á dögunum ósvífin skilaboð vegna þátttöku hennar í Miss Universe Iceland. „Ekki móðgast en þetta er keppni fyrir íslenskar stelpur,“ stóð í einum skilaboðum. Í öðrum tilfellum gekk fólk upp að henni og tjáði henni að litaðar stelpur ynnu ekki svona keppni eða henni var einfaldlega sagt „að fara heim til sín.“

Bjóst við viðbrögðunum

„Ég bjóst alveg smá við þessum viðbrögðum en ég tek þau samt inn á mig,“ segir Birta um skilaboðin. Hún telur ólíklegt að hún hefði fengið að vera í slíkri keppni fyrir áratug en að hún gleðjist yfir að viðhorf flestra séu að breytast. „Ég trúi því að þessi keppni sé meira um manneskjuna sem býr innra með þér og þar af leiðandi finnst mér ég hafa jafn mikinn séns og allir aðrir.“

Hún segir gamla óöryggið þó hafa skotið upp kollinum en þar sem hún sé með frábært bakland láti hún það ekki á sig fá. „Þrátt fyrir að ég passi ekki inni í staðalímynd af íslenskri fegurð þá er ég samt stoltur Íslendingur og ákvað að taka þátt í þessari keppni vegna þess að mig langaði til þess.“

Vill hafa jákvæð áhrif

Birta tók síðan ákvörðun um að birta færslu á Facebook síðu sinni í gær og tala opinskátt um fordómana sem hún hefur lent í. „Ég er búin að fá ótrúlega mikið af viðbrögðum, litað fólk sem þakkar mér fyrir að vekja athygli á þessu og hvítt fólk sem hefur aldrei séð svona áður og vill lýsa yfir stuðning sínum við mig."

Móðir Birtu ráðlagði henni að birta ekki færsluna af ótta við að hún myndi fá mikið af neikvæðum viðbrögðum og skilaboðum. Birta segir að niðurstaðan hafi verið þveröfug og að hún sjái svo sannarlega ekki eftir því að hafa tekið af skarið. „Ég er ótrúlega glöð að ég gerði þetta og vona að þetta muni hafa einhver áhrif."