Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur og frambjóðandi Samfylkingarinnar í væntanlegum Alþingiskosningum, gefur lítið fyrir þær skýringar Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra í Fréttablaðinu að byggðastefna Reykjavíkurborgar hafi haft áhrif til hækkunar á fasteignaverði.
Þetta kemur fram í Facebook færslu Kristrúnar þar sem hún vitnar í orð Ásgeirs. Ásgeir var til viðtals í Markaði Fréttablaðsins í dag. Þar sagði hann að lækkun veðsetningarhlutfalls sé til þess fallin að koma í veg fyrir að hækkunarfasinn á fasteignamarkaði verði að bólu. Ljóst sé að stefna Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum hafi haft áhrif til hækkunar á fasteignaverði.
Kristrún segir að eitt sé að lækka vexti. Annað sé að ýta undir mörg hundruð milljarða útlán til heimila í sértækri atvinnukreppu. „Þegar ég vakti athygli á þessu í nóvember var gagnrýninni ýtt til hliðar. Nú er skipulagsmálum kennt um skammtímahreyfingar á fasteignamarkaði. Í stað þess að ráðast snemma í sértækar aðgerðir fyrir einstaklinga og fyrirtæki í tekjustoppi var ákveðið að pumpa upp kerfið með aukinni skuldsetningu allra.“
Kristrún segir að framboð húsnæðis sé og hafi alltaf verið seigfljótandi. „Eftirspurn getur hins vegar breyst hratt ef aðgangur að fjármagni breytist. Það einfaldlega stenst ekki að 14% hækkun húsnæðisverðs á nokkrum mánuðum sé allt í einu vegna þéttingarstefnu Reykjavíkurborgar.“
Bendir Kristrún á að þeir sem byggja fasteignir bjóði í lóðir byggt á núverandi markaðsverði fasteigna. „Að hleypa fullt af lóðum á markaðinn og halda því fram að aðilar sem standa að uppbyggingu muni allt í einu selja eignir undir núverandi markaðsvirði er óskhyggja. Fyrir utan hvað það er ótrúleg skammsýni að þenja út alla byggð hér – efni í aðra umræðu.“
Að endurskrifa söguna allt annað mál
Kristrún segir að það sem hafi breyst í fyrra hafi verið að mörg hundruð milljarða aukning fjármagns sem rann í gegnum bankakerfið og beint inn á fasteignamarkaðinn.
„Það er eðlilegt að endurskoða aðgerðir, enginn gerir þá kröfu að allt gangi upp í flóknu ástandi. Að endurskrifa söguna og horfa fram hjá stærstu breytunni á fasteignamarkaði í fyrra er allt annað mál.“
Kristrún segir hér um að ræða klassískt dæmi um hvernig óbeinar efnahagsaðgerðir geti brenglað allt kerfið. „Afleiðing 1) kredduhugsunar um að ríkið eigi bara að koma inn þegar allt annað hefur verið reynt og 2) afstöðunnar að aðgerðir Seðlabanka (sem snúa ekki bara að vaxtabreytingum) geti ekki haft pólitískar afleiðingar – þrátt fyrir að þær geti haft mikil áhrif á eignamarkaði og þannig tekjuskiptingu.“